Innlent

Foreldrafélag útvegar barnagæslu

Starfsfólk hjá Íslandsbanka og Sjóvá-Almennum hefur stofnað foreldrafélag til að sjá um að útvega barnagæslu ef til kennaraverkfalls kemur. Stjórn félaganna kemur ekkert að málinu. Í tilkynningu frá nýja félaginu segir að leitað verði samninga við Heilsuskólann okkar en það fyrirtæki hefur áður gætt barna starfsmannanna í vetrarfríum og á starfsdögum kennara. Þar er lögð áhersla á útiveru, næringu og vináttu. Aðkoma fyrirtækjanna að þessu fór mjög fyrir brjóstið á forystumönnum kennara í gær en nú ætti það að vera úr sögunni. Mun fleiri stórfyrirtæki íhuga að koma á einhverskonar barnagæslu, ef til verkfallsins kemur, en Kennarasambandið líkir slíku við verkfallsbrot og áskilur sér allan rétt til aðgerða í slíkum tilvikum. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, sagði í viðtali við fréttastofuna í gær að þetta tefði fyrir samningaviðræðum hjá Ríkissáttasemjara. Ekki náðist í Eirík nú rétt fyrir fréttir til að leita álits hans á því að foreldrar einir sameinuðust um gæslu á börnum sínum, án afskipta fyrirtækja sem foreldrarnir vinna hjá. Fimm klukkustunda löngum samningafundi lauk án árangurs í gær og hefur nýr fundur verið boðaður í dag. Verkfall kennara hefst á mánudag, hafi ekki samist fyrir þann tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×