Innlent

Þurrkatíð rýrir afkomu bænda

Þurrkatíðin að undanförnu rýrir afkomu bænda þar sem gróður fölnar og er ekki eins kjarngott fóður og ella. Jóhanna Pálmadóttir á Akri í Húnavatnssýslu segir þetta hafa ótvíræð áhrif á afkomu sauðfjárbænda þar sem lömbin dafni hægar en ella , en nú styttist í sláturtíð. Hún segir að þar um slóðir hafi júní og júlí mánuðir verið óvenju þurrir og þá sjáldan að rignt hafi, hafi það verði lítið. Það sé helst rakinn á næturna sem vökvi gróðurinn. Óttar Geirsson ráðunautur hjá Bændasamtökunum segist hafa heyrt það víða að aldrei áður hafi verið jafn lítið í lindum, sem bændur fá neysluvatn úr. Fari þar saman óvenju litlir snjóar í vetur, þannig að forðabúr jarðvegsins náðu ekki að fylla sig í leysingum í vor, svo hafi þurrkar komið í kjölfarið og nú hitabylgja. Óttar segir að svonefndar Samveitur víða í sveitum, þar sem margir bæir sameinist um að bora eftir neysluvatni og leiða það heim á bæina, séu nú ótvírætt að sanna sig, því víða sé orðið lítið um vatn, þótt hann hafi ekki gert sérstaka úttekt á því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×