Innlent

Tvö börn vitni að líkamsárás

Sjö manns, þar á meðal tvö börn, voru á vettvangi í Öxnadal þar sem karlmaður á þrítugsaldri á að hafa höfuðkúpubrotið annan mann í síðustu viku. Hinn grunaði hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lögreglan á Akureyri yfirheyrir nú þá sem voru á staðnum. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri segir að yfirheyrslur muni standa fram eftir degi. Í fréttum Bylgjunnar í gær var greint frá því að fólk sem var í bifreið inní Öxnadal hafi óskað eftir aðstoð, laust fyrir klukkan hálfþrjú aðfaranótt fimmtudagsins í síðustu viku. Vegna slæms símasambands var ekki ljóst hvað hefði gerst og var sjúkrabíll sendur á vettvang, þar sem tilkynnt hafði verið um mann sem hefði slasast og misst meðvitund. Fólkið sagði manninn hafa dottið á veginn þegar hann var að fara út úr bílnum eftir deilur sem höfðu komið upp. Maðurinn var meðal annars höfuðkúpubrotinn og blætt hafði inná heila og var hann fluttur á gjörgæsludeild. Eftir að línur tóku að skýrast við rannsókn málsins var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn á laugardag grunaður um að hafa veitt manninum áverka. Meintur árásarmaður var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á mánudag. Lögreglan segir hinn grunaða og fórnarlambið vera Akureyringa og að þeir hafi komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála. Nú hefur komið í ljós að sjö voru á vettvangi, þar af tvö börn. Lögregla segir þrjá hafa verið í bílnum þar sem óskað var aðstoðar, tveir auk hins slasaða. Líklegt verður að teljast að börnin tvö og aðrir tveir fullorðnir hafi verið í öðrum bíl sem lögregla segir að hafi komið á móti hinum bílnum. Rannsóknarlögreglan á Akureyri vill ekki gefa nánari upplýsingar um málið fyrr en að loknum yfirheyrslum í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×