Innlent

Áheitasund yfir Faxaflóann

Í dag þreyja sundmenn úr Sundfélagi Akraness sitt árlega áheitasund yfir Faxaflóann frá Reykjavík til Akraness, um 18 km langa leið. Ferðin hófst á því að sundfólkið sigldi með hafnsögubátnum Leyni til Reykjavíkur, þar sem sundið hófst kl. 9:30 frá syðri innsiglingarvitanum í Reykjavíkurhöfn. Sundfólkið skiptist á að synda alla leiðina og tekur einn við þegar annar hættir. Síðasta spölinn syndir allur hópurinn og endar sundið í fjörunni á Langasandi á Akranesi. Íbúar í Reykjavík og á Akranesi geta fylgst með sundinu í gegnum kíki á leiðinni milli Akraness og Reykjavíkur. Þetta er ellefta árið sem elsti hópur Sundfélags Akraness þreytir þetta sund og er ávallt keppst við að bæta tímann frá árinu áður. Núna er viðmiðið 5 tímar og 15 mínútur, og er áætlað að koma að landi á Akranesi um kl. 15. Um borð í Leyni er aðstoðarfólk ásamt sjúkraliða og áhöfn bátsins, jafnframt því að félagar úr Björgunarsveit Akraness fylgja sundfólkinu eftir á bát sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×