Innlent

Búist við auknum flóðum

Búist er við að flóðin í Jöklu aukist eftir helgi. Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun segir að ástandið eystra sé þó gott núna miðað við síðustu daga. Hann segir að talsvert hafi sjatnað í ánni. Minna væri í henni í gær en í fyrradag og minna í dag en í gær. Hann segir vinnu við hækkun varnargarðsins ganga vel og býst við að henni ljúki að mestu í kvöld. Hækkunin er umtalsverð, eða um 11 metrar, enda segir Sigurður að menn búist við því versta. Sigurður segir að búist sé við vöxtum í ánni í næstu viku en flóðið sem þegar sé komið sé umtalsvert. Áin sé nú þrisvar sinnum meiri en í venjulegu árferði. Hann segir margt leggjast á eitt til að gera þeim erfitt fyrir. Auk vatnavaxtanna séu önnur göngin af tveimur ekki að skila því sem til stóð. Líklega sé einhver fyrirstaða í þeim. Eina ráðið hafi verið að auka þrýsting á göngin. Hann segir flóðin aðeins seinka einum verkþætti, en það er vinna við svokallaðan tágvegg. Verið sé að byggja aðra grjótstíflu samhliða þessu og hafi sú vinna ekki stöðvast. Hann segir að sú töf sem hefur orðið við vinnu á táveggnum, nemi örfáum vikum og sé góður möguleiki á því að hægt verði að vinna hana upp í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×