Innlent

Ekkert leitað að Sri í dag

Björgunarsveitarmenn á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem leita að líkinu af Sri Rhamawati, hafa frestað því fram á sunnudag eða mánudag, að setja út rekald við Kjalarnes. Þá verða sjávarföll með svipuðum hætti og daginn sem fyrrverandi sambýlismaður hennar varpaði líkinu í sjóinn. Ekkert verður leitað í dag vegna veðurs. Á annað hundrað björgunarsveitamanna hefur tekið þátt í leitinni að Sri Ramawati, sem saknað hefur verið frá fjórða júlí síðastliðinn. Hákon Eydal, fyrrverandi sambýlismaður hennar, hefur viðurkennt að hafa orðið henni að bana með þungu barefli í íbúð sinni við Stórholt í Reykjavík, og síðan varpað líkinu í hafið við Hofsvík á Kjalarnesi. Síðasta sólarhringinn hafa leitarskilyrði verið slæm út af Kjalarnesi og hefur því ekki farið fram skipulögð leit. Til stóð að setja út rekald við Kjalarnes í dag, til þess að kanna rek við ströndina, þar sem líkinu af Shri Rahmawati var varpað í sjóinn, en vegna veðurs hefur verið ákveðið að fresta því fram á sunnudag eða mánudag, því samkvæmt veðurspám verða sjávarföll þá með svipuðum hætti og daginn, þegar líkinu var varpað í sjóinn. Að sögn Valgeirs Elíassonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, mun björgunarskip fylgja rekaldinu eftir í tólf klukkustundir. Þannig geti björgunarsveitamenn, með þessum hætti, gert sér grein fyrir því hvert líkið kann að hafa rekið. Það verði þó aldrei nákvæmlega eins, því vegna rotnunar myndist gas í líkinu eftir ákveðinn tíma, sem valdi því að það fari að fljóta. Valgeir segir að ef rekaldið fari strax langt út á haf, þá sé það vísbending um að líkið af Sri Ramawati hafi farið sömu leið. Í tilkynningu lögreglu segir að tvívegis hafi verið leitað að Sri þar sem Hákon henti líki hennar í sjóinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×