Innlent

Björgólfur skattakóngur í ár

Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, er ótvíræður skattakóngur í ár í Reykjavík og reyndar á landinu öllu. Hann greiðir rúmar 295 milljónir króna í opinber gjöld. Bogi Óskar Pálsson, kenndur við Toyota, er langt innan við hálfdrættingur á við Björgólf, þótt hann sé í öðru sæti með 81 milljón. Jón Ásgeir Jóhannesson kenndur við Bónus er í þriðja sæti með rúmar 78 milljónir, Þórarinn Kristinsson í Depluhólum er í fjórða með rúmar 67 milljónir og Ingimundur Sveinsson arkitekt í því fimmta með tæpar 65 milljónir. Heildarálagning nam tæpum 59 milljörðum króna. Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur og á Reykjanesi: Árný Enoksdóttir ekkja Guðmundar Þorsteinssonar útgerðarmanns í Hópi í Grindavík ber hæstu gjöldin í Reykjanesumdæmi, rúmar 102 milljónir króna. Bræðurnir og umsvifamennirnir Einar og Benedikt Sveinssynir í Garðabæ eru í öðru og þriðja sæti , Einar með rétt rúmar 100 milljónir og Benedikt með tæpar 100 milljónir, en þeir eru bræður Ingimundar, sem er í fimmta sæti í Reykjavík. Kristinn G. Kristinsson í Garðabæ er fjórði með rúmar 66 milljónir, Þorsteinn Vilhelmsson fyrrverandi útgerðarmaður og skipstjóri frá Akureyri er með tæpar 60 milljónir og í tíunda sæti er Sigurður Einarsson stjórnarformaður KB banka, til skamms tíma búsettur á Seltjarnarnesi, en nú í Bretlandi með tæpar 29 milljónir króna. Álögð gjöld í umdæminu voru samtals um 64 milljarðar. Á Norðurlandi Eystra eru fimm efstu skattgreiðendurnir allir búsettir á Akureyri. Þar eru svonefndir Kennedybræður, Birgir og Vilhelm Ágústssynir í fyrsta og öðru sæti með rúmar 14 milljónir hvor og bróðir þeirra Skúli í fimmta sæti með með rúmar þrettán, en á milli þeirra bræðra skjótast Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja í þriðja sætið með tæpar 14 milljónir og Jóhannes Jónsson í Bónus í fjórða sæti með tæpar fjórtan milljónir. Patreksfirðingar eru í þremur efstu sætunum í Vestfjarðaumdæmi. Leif Halldórsson með rúmar 9 milljónir, Jón Björgvin G. Jónsson með níu milljónir, og Birgir Ingólfsson með tæpar sjö. Í fjórða sæti er Þorsteinn Jóhannesson á Ísafirði með 5,7 og Ólafur Sigmundsson á Ísafirði í því sjötta með með fimm og hálfa milljón. Á Norðurlandi Vestra eru fjórir læknar meðal fimm efstu gjaldenda og lyfsali blandar sér í hópinn. Gísli Ólafsson læknir á Blönduósi er efstur með sjö og hálfa milljón, Jóhannes Haraldur Pálsson lyfsali á Sauðárkróki með sex og hálfa milljón Ómar Ragnarsson læknir á Blönduósi með tæpar sex, Andrés Magnússon læknir á Sigluflirði með 5,7 og Valþór Stefánsson læknir, líka á Siglufirði með fimm og hálfa. Á Vesturlandi greiðir Páll Valdimar Stefánsson á Munaðarhóli í Snæfellsnessbæ hæstu gjöldin, tíu milljónir, Ólafur Ólafsson Miðhrauni í Eyja- og Miklaholtshreppi greiðir 3,6, Kristinn Þ. Bjarnason í stykkishólmi 2,3, Gísli Kjartansson í Borgarbyggð 2,2 og í fimmta sæti á Vesturlandi er Jón Þór Hallsson á Akranesi með rúmar tvær. Á Suðurlandi greiðir Guðmundur A. Birgisson að Núpum þrjú, mest, eða rúmar 16 milljónir, Næstur er Gunnar A Jóhannsson í Árbæ með rúmaar 15, Guðmundur Jónsson á Selfossi með 15, Jón Sigurðsson í Múla með rúmar 11 og Kári Jónsson á Selfossi greiðir rúmar níu milljónir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×