Innlent

Kárahnjúkabók Ómars komin út

Á meðan sumir segja Kárahnjúkavirkjun stærsta og jákvæðasta hagsmunamál Íslendinga, segja aðrir hana stærsta umhverfishneyksli Evrópu. Þessi ólíku sjónarmið eru kynnt í nýrri bók Ómars Ragnarssonar, Kárahnjúkar - með og á móti, en verkið var kynnt á heldur óvenjulegum blaðamannafundi.  Strax var ljóst að ekki væri um neina hefðbundna bókakynningu að ræða. Fjölmiðlafólki var smalað upp í flugvélar og stefnan tekin austur að Kárahnjúkum þar sem Ómar bauð upp á útsýnisflug. Virkjanaframkvæmdirnar eru tilkomumiklar, stærsti minnisvarði sem nokkur kynslóð Íslendinga hefur reist um sjálfa sig. Í ferðinni vildi Ómar sýna fram á mikilfengleik virkjunarinnar og náttúrunnar, öflin sem tekist hefur verið á um í einu mesta hitamáli síðari tíma. Vissulega er svæðið tilkomumikið séð úr lofti og ekki er það síðra eftir lendingu. Bókarkynningin fór svo fram á Kringilsárrana sem var vel við hæfi því það svæði fer undir 80 metra djúpt lón og ekki hafa margir aðrir komið þangað undanfarin á en hreindýr, gæs, refur og Ómar Ragnarsson. Náttúran hefur afgirt Kringilsárrana með tveimur ám og jökli og því er einungis hægt að komast þangað með flugi. Núlifandi Íslendingar eru því þeir einu sem hafa tækifæri til að berja svæðið augum. Fórðungur þess verður kominn undir vatn þegar komandi kynslóðir vaxa úr grasi. Ómar hefur varið ári í ritstörf og tæpum áratug í rannsóknarvinnu. Þrátt fyrir að geta talist sá Íslendingur sem hefur hvað mesta þekkingu á staðháttum við Kárahnjúka gekk það ekki þrautalaust fyrir sig að fá ritverkið útgefið. Ómar segist hafa upplifað það sem og með sjónvarpsmynd sína um svæðið; mönnum þótti þetta hættulegt, viðkvæmt og að umfjöllunin gæti skaðað Ómar og þá sem stæðu að þessu. Ómari var bent á að tala við tvær bókaútgáfur sem grættt hefðu í síðustu jólavertíð og ættu því kannski efni á útgáfu bókarinnar. Önnur útgáfan var JPV-forlag og Jóhann Páll, útgáfustjóri þess, var reiðubúinn í útgáfuna. Aðspurður hvað drífi sig áfram í þessu, t.d. í ljósi þess að menn verði ekki ríkir af svona verkum, segir Ómar það vera hið sama og drífi alla fjölmiðlamenn áfram: að kanna málin til botns og skila af sér eins góðri verki og hægt sé. Í bókinni er að finna bæði með- og mótrök fyrir virkjanaframvkæmdum við Kárahnjúka. Öllum röksemdum og sjónarmiðum er gert jafnhátt undir höfði, hvort sem litið er á virkjanaframvkæmdirnar sem Landvinninga nýrrar aldar eða mesta afsal og missi lands í Íslandssögunni. Ómar segir að í bókinni sé efast um allt, spurt um allt og reynt að svara öllu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×