Menning

Hátíðarstemning á landsbyggðinni

Hin árlega fjölskylduhátið, Á góðri stund í Grundarfirði, verður haldin þar í bæ um helgina. Dagskráin byrjar með grillveislu við veitingastaðinn Kaffi 59 á morgun þar sem Kalli Bjarni heimsækir gömlu æskuslóðirnar og skemmtir og gefur áritanir. Á laugardeginum verða sölutjöld á bryggjunni þar sem seldur verður ýmis konar varningur auk þess sem þar verða ýmis leiktæki eins og hoppukastalar, rafmagnsbílar og fleira. Bryggjuskemmtun verður haldin þar sem söngelskir grundfirskir krakkar syngja, Kaffibrúsakallarnir koma í heimsókn ásamt fleirum. Um kvöldið verður síðan slegið upp hverfahátíð og bryggjuballi með hinni grundfirsku hljómsveit FEIK. Góð skemmtun í Grundarfirði um helgina sem enginn má missa af !

Sjá nánar á www. grundarfjordur.is

Hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis síldarævintýris Íslendinga verða haldin á Siglufirði um helgina þar sem Síldarminjasafnið verður með síldarsöltun, bryggjuball og harmónikuleik. Á laugardeginum munu Siglfirðingar og hátíðargestir taka á móti heiðursgestum og öðrum opinberum gestum með stuttri móttökudagskrá með tónlistaratriðum þar sem Karlakór Siglufjarðar syngur og fleira. Á torginu verður spiluð tónlist í anda síldaráranna og haldin verður útidansleikur á Ráðhústorginu. Þetta og margt fleira á Siglufirði um helgina. Sjá dagskrá á www.siglo.is

Franskir dagar á Fáskrúðsfirði verða haldnir um helgina en það er fjölskylduhátíð með fjölbreyttri dagskrá þar sem undirstrikuð eru tengsl Fáskrúðsfjarðar og Frakklands. Á dagskránni verður meðal annars franska óperan Le Pays (Föðurlandið) eftir Ropartz frumflutt á Íslandi og einnig verður sýning sem byggð er á þjóðsögum sem gerst hafa á Fáskrúðsfirði.

Hátíðin Vopnaskak á Vopnafirði verður formlega sett á morgun með hátíðardagskrá við Vopnafjarðarskóla þar sem verða leiktæki, mini golf, kassabílarall og fleira. Þá sýnir Pétur Pókus töfrabrögð og hljómsveitin Mannakorn leika nokkur lög ásamt mörgu fleiru. Á laugardeginum verður sandkastalakeppni og knattspyrnumót ásamt skipulagðri dagskrá á hátíðarsvæðinu sem stendur á milli 15:00-17:30. Um kvöldið verða haldnir fjölskyldutónleikar í félagsheimilinu Miklagarði. Á sunnudeginum verður Vesturfaradagurinn í Kaupvangi þar sem verður opið hús með veitingum, fyrirlestrum og vesturfarsmálefnum.

Nánari dagskrá er hægt að nálgast á www.vopnafjordur.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×