Innlent

Kerfisbundnar nauðganir í Súdan

Súdanskir arabar nauðga konum og börnum til að hrekja afríska Súdana út úr vesturhluta Darfur-héraðs í Súdan, að sögn mannréttindasamtaka í landinu. Tugir þúsunda hafa látið lífið í átökum í Darfur-héraði og rúmlega milljón manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín, rúmlega sex milljónir manna búa í héraðinu. Sumir saka ríkisstjórn Súdans um að halda hlífiskildi yfir vígamönnunum en ríkisstjórnin vísar því á bug. Samkvæmt Amnesty International hafa vígamennirnir nauðgað konum og börnum allt niður í átta ára að aldri, kerfisbundið til að niðurlægja fjölskyldur þeirra og ættbálka. Oft er konum nauðgað í viðurvist fjölskyldu sinnar og fyrir almenningi. Ódæðisverk á borð við þessi jafnast á við verstu stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni að sögn mannréttindasamtaka. Ríkisstjórn Súdans vinnur að samningum um vopnahlé við súdanska uppreisnarmenn, skærur þeirra við hirðingja í Darfur-héraði hafa varað í hálft annað ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×