Innlent

Upptökin ókunn

"Það er á þessari stundu óvíst hvaðan riðan hefur borist í féð í Árgerði," segir Sigurður Sigurðarson, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, vegna staðfestrar riðuveiki á bæ í Skagafirði. Farga þarf öllu fé á bænum en þetta er í annað sinn sem bóndinn á bænum verður fyrir slíkum búsifjum. Sigurður hefur lýst yfir áhyggjum sínum vegna þess sem hann lýsir sem almennu sinnuleysi gagnvart þeim hættum sem af riðuveiki stafa en komi slíkt upp verður undantekningarlaust að farga öllu fé á viðkomandi bæ og jafnvel í heilu sveitarfélögunum. "Riða hefur oft komið upp í kjölfar heyflutninga, sem talsvert er um á hverju ári. Þótt ekki hafi tekist að sanna endanlega að heyflutningar skapi smithættu hafa eldri rannsóknir sýnt fram á að veikin hefur fundist í heymaurum og mýs sem voru sprautaðar með sýnum úr þeim sýndu einnig að um smit var að ræða." Sigurður vonast til að hestamenn leiði hugann að riðuveiki við heyflutninga og gæti þess vel að ganga alls staðar um með það í huga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×