Innlent

Alltaf leitað til lögreglu

Forstöðumaður Barnaverndarstofu segir að alltaf sé leitað til lögreglu þegar kynferðisbrotamál gegn börnum komi til kasta hennar. Hann vísar því algjörlega á bug að persónuleg óvild í garð hjóna sem reka meðferðarheimilið að Torfastöðum hafi stjórnað rannsókn á meintu kynferðisbroti á heimilinu. Hjón sem reka meðferðarheimilið Torfastaði vilja að forstöðumanni Barnaverndarstofu verði vikið úr starfi vegna aðkomu hans að meintu kynferðisbrotamáli, þar sem sonur hjónanna var borinn sökum. Ríkissaksóknari hefur vísað kæru á hendur syninum frá. Forstöðumaður Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson, stjórnaði rannsókn málsins, og segja hjónin hann hafa farið hamförum og strax virtist hafa legið fyrir að sonurinn yrði kærður til lögreglu. Á vefsíðu Barnaverndarstofu vísar Bragi því alfarið á bug að persónuleg óvild hafi stjórnað framgöngu hans í málinu. Það sé alltaf alvarlegt mál þegar börn segi frá kynferðisofbeldi, og lögð sé áhersla á markviss og hröð vinnubrögð. Þess vegna sé leitað til lögreglu, og Barnaverndarstofa myndi bregðast eftirlitsskyldu sinni ef aðgerðarleysi eða dráttur yrði á aðgerðum í kjölfar slíkrar frásagnar barns. Þó óskað sé eftir lögreglurannsókn sé ekki alltaf víst að ákært verði. Bragi bendir á að aðeins sé ákært í um helmingi þeirra mála sem lögreglan sendir ríkissaksóknara. Barnaverndarstofa telji því niðurstöðu ríkissaksóknara ekki fela í sér neina gagnrýni á vinnubrögð stofunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×