Innlent

Jarðgöng undir Vaðlaheiði í bígerð

Undirbúningsfélag um jarðgöng undir Vaðlaheiði, austan Akureyrar, telur að göngin geti orðið að veruleika eftir sex ár ef allur undirbúningur gengur að óskum. KEA hefur þegar ákveðið að leggja fram hundrað milljónir króna í hlutafé vegna ganganna. Þetta kom fram á fyrsta aðalfundi Greiðrar leiðar í gær en svo heitir undirbúningsfélagið. Gróflega áætlað er talið að leiðaval og jarðfræðirannsóknir vegna ganganna taki um eitt ár, lokarannsóknir, matsferli , hönnun og gerð útboðs tvö ár og framkvæmdirnar sjálfar þrjú ár. Öll sveitarfélög á Norðurlandi eystra auk tíu fyrirtækja eru aðilar að félaginu. Göngin sjálf yrðu rúmlega sjö kílómetra löng og forskálar við enda þeirra samtals um 200 metrar. Þá þyrfti að leggja samtals tveggja kílómetra langa vegi að gangamunnunum og myndi þetta stytta þjóðveg eitt um 15-16 kílómetra, miðað við að ekið sé um Víkurskarð eins og núna. Samgöngur á milli Akureyrar og Húsavíkur myndu stórbatna og hefur Vegagerðin metið ávinning ganganna svo að umferð á leiðinni myndi aukast um fjórðung og yrði rösklega 1200 bílar á sólarhring að meðaltali. Það er um þriðjungur umferðar um Hvalfjarðargöngin. Heildarkostnaður er áætlaður um fimm milljarðar króna og myndu vegtollar greiða rösklega helming þess kostnaðar upp en afganginn greiddi ríkið af vegaáætlun. Á aðalfundinum í gær kom fram að þingmenn á svæðinu hafi tekið málinu vel og eru vonir um að við endurskoðun vegaáætlunar í haust verði göngunum markaðir fjármunir til undirbúningsrannsókna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×