Innlent

Vilja talsmann neytenda

Neytendamál eru eitt þeirra mála sem Samfylkingin ætlar að leggja áherslu á nú í þingbyrjun. Lagt verður til að stofnað verði embætti talsmanns neytenda til að styrkja stöðu neytenda á frjálsum markaði. "Þessi málaflokkur hefur verið útundan hjá stjórnvöldum mjög lengi. Þær breytingar til batnaðar sem hafa verið gerðar og þau lög sem hafa verið sett hafa komið í gegnum EES-samninginn á síðustu tíu árum. Við erum áratugum á eftir nágrannalöndum okkar í neytendavernd og neytendarétti," segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Þórunn segir mál neytenda hafa verið á jaðrinum hjá Samkeppnisstofnun. Stofnunin hafi haft mjög mikið að gera og fjárveitingar til neytendamála ekki verið sérgreind. Því telur hún mikilvægt að embætti talsmanns hefði sjálfstæðan fjárhag og almennt sjálfstæði. Talsmaðurinn þurfi að vera sýnilegur þannig að fólki finnist auðvelt og sjálfsagt að leita réttar síns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×