Innlent

Ríkið kaupi Reykjavíkurborg út

Viðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur sem miða að því að ríkissjóður kaupi meðeigendur sína, fyrst og fremst Reykjavíkurborg út úr Landsvirkjun. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra skýrði frá viðræðunum á þingflokksfundum stjórnarflokkanna í gær. Hins vegar tókst ekki að ganga frá viljayfirlýsingu um málið í gær áður en Þórólfur Árnason léti af starfi borgarstjóra en honum var mjög í mun að láta þetta verða sitt síðasta verk. Háttsettur embættismaður vísaði því hins vegar á bug að viðræðuslit hefðu orðið: "Þetta mun ganga upp þótt þessi tímarammi hafi ekki náðst." Reykjavíkurborg hefur um nokkurra ára skeið viljað selja hlut sinn í Landsvirkjun. Hugmyndin hefur verið sú að ríkið greiði fyrir kaupverðið um það bil 25-30 milljarða króna með því að taka yfir lífeyrisskuldbindingar Reykjavíkurborgar og Akureyrar, til dæmis með útgáfu skuldabréfs. Ekki hefur verið mikill áhugi á þessum kaupum hjá ríkinu fyrr en nú. Ríkisvaldið telur fyrirtækið 45-50 milljarða króna virði. Til samanburðar má nefna að ríkið seldi 46% hlut í Landsbankanum á 12 milljarða fyrir tæpum tveimur árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×