Innlent

Víðtækt samstarf ÁTVR og Essó

Hugsanlegt er að fleiri muni stefna Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í kjölfar þeirra málaferla sem eru í farvatninu í Hveragerði samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Svo virðist sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kunni að hafa í fleiri tilfellum brotið lög um framkvæmd útboða. Athygli vekur að í öllum þeim tilfellum var samið við fyrirtæki sem leigðu aðstöðu hjá Essó. Það var gert í Vík í Mýrdal, á Kirkjubæjarklaustri og í Þorlákshöfn. Á Höfn í Hornafirði var starfsemi áfengisverslunarinnar nýlega flutt í nýtt húsnæði Essó á staðnum þótt fyrirtækið sjái ekki um reksturinn sjálfan og á Hvolsvellli er áfengisverslunin í sama húsi og bensínstöð Essó. Fréttablaðið ræddi við nokkra sem gerðu tilboð en fengu ekki og sögðu þeir að í þessum tilfellum hefðu tilboðin ekki verið opnuð og því hefði ekki fengist uppgefið hvað fyrirtækin sem fengu reksturinn og leigja hjá Essó buðu. Flestir þeir sem Fréttablaðið ræddi við voru sammála um það að þessi tengsl ÁTVR og Essó væru undarleg. Einn sveitarstjórnarfulltrúi á Suðurlandi, sem ekki vildi láta nafns síns getið, gekk svo langt að segja að þetta væri í raun ekkert annað en samráð. Höskuldur Jónsson, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, þvertekur fyrir það að einhver annarleg tengsl séu milli ÁTVR og Essó. "Það að við leggjum markvisst lag okkar við Essó er alveg víðsfjarri," segir Höskuldur. "Við höfum tilhneigingu til að leita eftir einhverjum sem við höldum að haldi velli. Eðli málsins samkvæmt þá lifir bensínafgreiðsla lengur á litlu stöðunum en önnur starfsemi." Þá segir Höskuldur að í Vík, á Kirkjubæjarklaustri og í Þorlákshöfn hafi ekki verið um útboð að ræða. "Ég held við höfum ekki kallað þetta útboð heldur verðkönnun. Þá kynnum við þarfir okkar og skoðum þau boð sem koma og tökum ákvörðun á grundvelli þeirra upplýsinga sem við fáum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×