Innlent

Ætandi klórgas á Kársnesið

Miklar efasemdir eru innan bæjarstjórnar Kópavogs um ágæti þess að fá klórgasframleiðslu Mjallar-Friggjar í bæinn, að því er fram kom á fundi bæjarstjórnar síðasta þriðjudag. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir að klórgas sé "mjög hættulegt ætandi og eitrað gas" og talið æskilegt að framleiðsla með klórgasi sé staðsett "sem fjærst íbúðarhúsnæði, öðrum húsum og starfsemi", að því er fram kemur í umsögn til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Mjöll-Frigg hf. hefur sótt um að flytja klórframleiðslu sína frá Fosshálsi 3 í Reykjavík að Vesturvör 30c í Kópavogi. Í innan við kílómetra fjarlægð frá Vesturvör er húsnæði Kársnesskóla og í svipaðri fjarlægð yfir voginn er svo Nauthólsvík, vinsæll bað- og útivistarstaður íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Í umsögn slökkviliðsins kemur fram að verði mikill klórgasleki, til dæmis úr stóru þrýstihylki, sé lagt til að svæði verði lokað og það rýmt í 275 metra radíus frá lekanum. Innan þess svæðis geti verið lífshættulegt að vera. Þá þarf að aðvara og vernda svæði undan vindi þar sem fólk er, í allt að 2,7 kílómetra fjarlægð. Á því svæði geti fólk orðið ósjálfbjarga og orðið fyrir alvarlegum og óafturkræfum heilsubresti. Tekið er fram að tölurnar séu til viðmiðunar og þættir á borð við veðurfar og byggingar geti haft áhrif. Litlar líkur eru taldar á að alvarleg óhöpp geti átt sér stað og mesta hættan sögð vera þegar klórhylki eru flutt á áfangastað frá hafnarsvæði. Samskip sjá um flutning á klórhylkjum fyrir Mjöll-Frigg. Hylkjum er skipað upp í Sundahöfn í Reykjavík og flutt í 20 feta gámum á athafnasvæði fyrirtækisins. Talið er að sá háttur verði hafður á jafnt eftir sem fyrir flutning á klórframleiðslu Mjallar-Friggjar. Í hverjum gámi eru 12 gashylki. Í umsókn fyrirtækisins um starfsleyfi kemur fram að hvert hylki sé 1,6 tonn að þyngd með innihaldi. Flutningurinn á klórframleiðslu fyrirtækisins er fyrirhugaður í kjölfar eigendaskipta á fyrirtækinu. Eigandi Filtertækni við Vesturvör í Kópavogi keypti Mjöll-Frigg fyrr á árinu og stendur til að samnýta húsnæði þar, að sögn Magnúsar Grétarssonar, rekstrarstjóra hjá Mjöll-Frigg. "Húsnæðið er í eigu eigandans hér við Vesturvör, en við erum í leiguhúsnæði uppi á Fosshálsi," segir hann og er vongóður um að vel verði tekið í flutning fyrirtækisins hjá Kópavogsbæ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×