Innlent

Fundur um rjúpuna í kvöld

Skotveiðifélag Íslands stendur fyrir fundi um rjúpuna í Norræna húsinu í kvöld klukkan átta. Dr. Ólafur K. Nielsen mun þar kynna nýja skýrslu Náttúrufræðistofnunar og Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur leggur ítarspurningar fyrir Dr. Ólaf. Áki Ármann Jónsson, forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar, mun skýra frá stöðu veiðikortakerfisins og þeim skakkaföllum sem það hefur orðið fyrir vegna rjúpnaveiðibannsins að því er segir í tilkynningu. Þá munu þingmenn, fulltrúar flokkanna sem eiga setu á Alþingi, stíga á stokk og segja frá skoðunum sínum og stefnu flokks síns hvað varðar friðun rjúpunnar og svara þeirri spurningu hvort þeir telji að afnema eigi bann við veiðum á rjúpu. Þetta er fyrsti fundur skotveiðimanna með alþingismönnum og segir í tilkynningunni að búast megi við að heitt verði í kolunum, ekki síst ef haft sé í huga að eftir útkomu hinnar nýju skýrslu Náttúrufræðistofnunar fjölgar þeim veiðimönnum sem telja að unnið sé að því leynt og ljóst að alfriða rjúpuna um ókomna framtíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×