Erlent

Ástand Arafats enn alvarlegt

Enn er óttast um heilsu Jassers Arafats, leiðtoga Palestínu, sem er ásamt fjölskyldu sinni, fjölda lækna og embættismanna á heimili sínu á Vesturbakkanum. Arafat fór þó til messu í morgun en var afar veikburða að sögn sjónarvotta. Í gær var óttast að Arafat, sem er 75 ára gamall, væri við dauðans dyr eftir að hann hné niður og missti meðvitund um tíma. Fréttir af heilsu Arafats í morgun eru nokkuð misvísandi og að því er fram kemur í fréttum BBC-fréttastofunnar segir ýmist að leiðtoginn aldni sé í lífshættu eða að ástand hans sé orðið stöðugt og hann sé úr lífshættu. Arafat yfirgaf þó heimili sitt í morgun til þess að halda til morgunbæna ásamt læknum og fylgdarliði. Að sögn sjónarvotta var Arafat afar laslegur og máttvana að sjá en fór þó með bænirnar sínar líkt og aðrir í messunni. Fljótlega verður væntanlega tekin ákvörðun um það hvort flytja þurfi Arafat frá höfuðstöðvum sínum í Gasa til frekari aðlynningar en eins og fram hefur komið lýsti Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, því yfir að Arafat gæti yfirgefið híbýli sín án þess að eiga á hættu að verða fyrir árás frá Ísraelsmönnum. Í gær voru þrír háttsettir embættismenn fengnir til þess að leysa Arafat af hólmi þar til hann nær sér af veikindunum. Færi svo að Arafat félli frá yrði Rouhi Fattouh, talsmaður þingsins í Palestínu, skipaður eftirmaður hans tímabundið. Innan sextíu daga yrði svo kosið um það hvort hann skyldi taka við stöðunni til langframa. Óttast er að óeirðir gætu brotist út ef Arafat félli frá, enda nýtur hann mikils persónufylgis og enginn með sambærilegt fylgi sjáanlegur til þess að taka við af honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×