Innlent

Biðraðir á slysadeild

Biðraðir mynduðust um tíma á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Reykjavík í gærmorgun vegna hálkuslysa. Að sögn Kristínar Sigurðardóttur, vakthafandi læknis, var það að megninu til fólk "á besta aldri" á leið til vinnu og í skóla sem áttaði sig ekki á því hversu launhált var. Kristín sagði fólk gjarnan hafa lýst því á þann veg að það "hafi bara flogið" ýmist aftur á bak eða áfram vegna hálkunnar. Fyrir hádegi höfðu hátt í 50 manns leitað á slysadeildina, um 90 prósent þeirra eftir að hafa fallið í hálku. Þá voru í hópnum einhverjir sem ekki voru orðnir góðir eftir að hafa fallið í hálku á laugardaginn. "Bæði er það að fólk hefur lent á baki eða hnakka, eða þá dottið fram fyrir sig og skaddast á úlnlið, olnboga eða öxlum," sagði Kristin. Fólk hélt áfram að streyma á slysadeildina yfir daginn og seinnipart dags höfðu nokkrir komið sem brotnað höfðu illa. "Við fengum meira af skólabörnum og svo bættust við nokkur ljót brot sem eiga eftir að skipta fólk máli," sagði hún. Á Veðurstofu Íslands fengust þær upplýsingar að hætt geti verið við hálku áfram, en vegna þess að úrkomulaust hafi verið er ekki víst að hún verði jafnskæð og í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×