Innlent

Klippt á ævistarfið

"Það er sorglegt að sjá hvernig þetta fer. Verksmiðju með næga orku og nægt hráefni og allt til alls er lokað. Bara skellt í lás. Maður skilur þetta ekki, því miður," segir Gústav Nilsson, framleiðslustjóri Kísiliðjunnar. Hann fluttist í Mývatnssveitina vorið 1970 og starfaði fyrsta áratuginn sem viðhaldsstjóri og framleiðslustjóri eftir það. Hann þekkir hverja skrúfu í verksmiðjunni. "Það er vissulega sárt að horfa upp á þegar klippt er svona á ævistarfið." Gústav segir andann hafa verið skrítinn í Bjarnaflaginu í gær en fólk hafi borið sig furðu vel. "Það er reyndar furðulegt hvað fólk tekur þessu rólega, margir trúa þessu náttúrulega ekki ennþá. En svo kemur sjokkið þegar fólk sér allt í einu að það fær ekki laun." Sjálfur ætlar Gústav að flytja úr Mývatnssveit, hann eltir börnin sín suður yfir heiðar. "Þetta er lang skást fyrir mig, ég átti í raun að vera hættur. Hér er venjan að fólk hætti sjötugt og ég varð sjötugur í vor. Það var hins vegar samið um að ég yrði til loka þannig að þetta er auðvelt fyrir mig." Þegar Gústav fluttist í Mývatnssveit fyrir næstum 35 árum var þar öðruvísi um að litast, sveitin var nánast einangruð að vetrum og íbúar mun færri en nú er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×