Innlent

Uppgjör bóta 42.000 lífeyrisþega

Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum nær til um 42 þúsund lífeyrisþega. Hann varðar heildargreiðslu bótanna fyrir árið 2003, en þær námu þá samtals ríflega 25 milljörðum króna. Er þetta í fyrsta skipti sem endurreikningur svo og uppgjör bóta fer fram með þessum hætti, en honum er nú lokið. Þetta felur í sér að hafi lífeyrisþegi fengið of lágar greiðslur á árinu, til dæmis vegna þess að í tekjuáætlun var gert ráð fyrir hærri tekjum en raun varð á, fær hann vangreiðsluna greidda út. Hafi lífeyrisþegi aftur á móti fengið of háar greiðslur, svo sem vegna þess að árstekjur hans urðu hærri en gert hafði verið ráð fyrir eða misfarist að láta Tryggingastofnun vita um tekjubreytingar eða samsetningu tekna, er ofgreiðslan innheimt. Niðurstöður endurreikningsins berst lífeyrisþegum í næstu viku en frestur til að koma að athugasemdum við hann er veittur til 13. desember. Í framhaldi af því fer fram uppgjör og er stefnt að því að inneignir verði greiddar út í desember en innheimta ofgreiðslna hefjist eftir áramót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×