Innlent

Nauðlending í Húsafelli

"Ég reyndi bara að bregðast við eins og ég var þjálfuð til að gera og halda mér rólegri og held að það hafi komið mér til bjargar," segir Margrét Linnet flugmaður, sem nauðlenti flugvél í Húsafelli í gær. Hún var ein í vélinni og slapp ómeidd. Snorri Geir Steingrímsson, einn eigenda vélarinnar sem er af gerðinni TF-UPS, hrósaði viðbrögðum Margrétar: "Ég er mjög ánægður að stelpan hafi getað gengið frá þessu. Mjög flott hjá henni að lenda flugvélinni með stjórnklefann fullan af reyk," Snorri segir konuna hafa notað slökkvitæki í lofti en síðan lent flugvélinni vel. Hann segir hana hafa hlotið góða þjálfun en hún er atvinnuflugmaður. "Auðvitað er hún sjokkeruð, ég get ekki ímyndað mér annað. Ég hefði ekki getað lent vélinni jafn flott og hún gerði." Nefhjól, mótor og vinstri vængur vélarinnar skemmdist nokkuð. Að sögn Þorkels Ágústssonar hjá rannsóknarnefnd flugslysa fór vettvangsrannsókn fram í gær eftir nauðlendinguna. Hann segir reyk hafa komið upp í flugstjórnarklefanum og flugmaðurinn því ákveðið að nauðlenda. Rannsóknin beinist að hreyfli vélarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×