Innlent

Formennirnir sitja enn á fundi

Formenn stjórnarflokkanna sitja enn á fundi í stjórnarráðinu og ræða breytta stöðu í fjölmiðlamálinu. Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins kom til Reykjavíkur eftir hádegið og gekk á fund Davíðs í stjórnarráðinu um þrjúleytið. Eins og fram kom í fréttum Bylgjunnar í hádeginu vill forysta Framsóknarflokksins að fjölmiðlafrumvarpið verði dregið til baka. Líklegast er að óskað verði eftir að nýtt frumvarp verði lagt fram sem felli fjölmiðlalögin úr gildi, en að öðrum kosti verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Áhrifamiklir menn innan Framsóknarflokksins hafa hist á fundi undanfarna daga og rætt málið og áhrif þess innan flokksins. Litið er á stöðuna nú sem prófraun á Halldór í formannsembætti flokksins en þetta er alvarlegasti ágreiningurinn sem komið hefur upp í stjórnarsamstarfinu. Fundi í allsherjarnefnd Alþingis var slitið um hádegisbil og verður ekki framhaldið fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Formaður Samfylkingarinnar segir að stjórnarmeirihlutinn geti ekki komið sér saman í málinu og að ríkisstjórnin sé að springa. Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar hafnar því að beðið sé eftir skipunum frá formönnum stjórnarflokkanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×