Innlent

Sprengjueyðingar umfangsmeiri

Sprengjueyðing er að verða sífellt umfangsmeira verkefni hjá Landhelgisgæslunni og er hún orðin mjög vel tækjum búin, með sprengjueyðingavélmenni og fleira. Þá er aukin áhersla á varnir gegn hryðjuverkum en síðar í mánuðinum verður hér á landi umfangsmesta æfingin til þessa í þeim efnum. Yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar segir búnað stofnunarinnar til leitar og eyðingar á sprengjum á við það besta sem tíðkast í heiminum í dag og þekking starfsmanna gríðarlega góð. Meðal annars hafa þeir yfir að ráða vélmenni sem notað er til að komast að sprengjum, skoða þær og gera óvirkar. Sem dæmi er hægt að tengja við það röntgentæki sem gegnumlýsir sprengjur. Þá er vatn gjarnan notað til að eyða sprengjum en því er sprautað af ógnarkrafti þannig að sprengjurnar og allt inni í þeim tætast í sundur. Einnig er Landhelgisgæslan búin að fá búnað sem finnur sprengjur sem eru undir yfirborði jarðar þannig að hún er mjög vel í stakk búin til að sinna þessum verkefnum segir Gylfi Geirsson, yfirmaður sprengjudeildar Gæslunnar. Þar fyrir utan hefur Landhelgisgæslan yfir að ráða vel þjálfuðum mannskap. Eins og Stöð 2 greindi frá í gær hefur Landhelgisgæslan fjarlægt mörg hundruð virkar sprengjur af útivistarsvæði á Vogaheiði en þar var skotsvæði Bandaríkjahers á árum áður. Slíkum verkefnum fer fjölgandi hjá Landhelgisgæslunni að sögn Gylfa. Síðar í þessum mánuði verður haldin fjölþjóðleg æfing hér á landi, þar sem viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkum verða æfð. Auk Íslendinga, taka Bandaríkjamenn, Danir, Norðmenn og Bretar þátt. Þetta er þriðja árið í röð sem slík æfing er haldin hér á landi en þetta verður sú lang umfangsmesta hingað til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×