Innlent

Fyrst allra yfir Breiðafjörð

"Mér líður furðuvel, enda búin að koma við í heita pottinum," sagði Viktoría Áskelsdóttir sem lauk í gær sundi yfir Breiðafjörð, fyrst allra. Bæjarbúar tóku vel á móti Viktoríu þegar hún steig upp á bryggjuna í Stykkishólmi að sundinu loknu. Hún lagði af stað frá Lambsnesi við Barðaströnd hinn 24. júlí en sundleiðin er rúmir 60 kílómetrar. Vegna kuldaáhrifa gat hún ekki synt lengur en um tvo tíma á dag. Viktoría er ekki óvön sjósundi. Í fyrra synti hún úr Hrísey yfir að Árskógsströnd og hún stundar reglulega sjóböð, jafnvel að vetrarlagi, með félögum sínum. Með sundinu yfir Breiðafjörðinn vildi Viktoría vekja athygli á starfi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Hún hafði aldrei áður tekið virkan þátt í því starfi. "Mér fannst þetta verðugur málstaður. Þetta er starf í þágu barna og Sameinuðu þjóðanna og með því að styðja það trúi ég að heimsmálin komist smám saman í bærilegt lag." Söfnunarsími Barnahjálparinnar er 575 1520 og heimasíða samtakanna er www.unicef.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×