Ings af­greiddi Tottenham, auð­velt hjá Leicester og flug Pear­son með Wat­ford heldur á­fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ings fagnar marki sínu.
Ings fagnar marki sínu. vísir/getty

Southampton fékk tíu stig af tólf mögulegum yfir jólahátíðirnar en liðið vann í dag 1-0 sigur á Tottenham á heimavelli.

Fyrsta og eina mark leiksins kom á sautjándu mínútu en þá skoraði Danny Ings. Funheitur Ings kominn með þrettán mörk í deildinni.

Tottenham reyndi allt hvað þeir gátu til að jafna metin en urðu fyrir áfalli er Harry Kane fór af velli í síðari hálfleik tognaður aftan í læri.







Tottenham mistókst að minnka forskot Chelsea í baráttunni um fjórða sætið en Tottenham er í 6. sætinu með 30 stig. Chelsea með sex stigum meira.

Southampton er komið upp í 11. sæti deildarinnar og er nú með 25 stig en liðið hafði verið í bullandi fallbaráttu framan af móti.







Annað lið sem hefur verið á góðu skriði er Watford en liðið hefur, eins og Southampton, náð í tíu stig yfir jólin.

Gerard Deulofeu kom Watford yfir og Abdoulaye Doucoure tvöfaldaði forystuna á 49. mínútu áður en Pedro Neto minnkaði muninn ellefu mínútum síðar.

Christian Kabasele fékk beint rautt spjald á 70. mínútu en tíu leikmenn Watford héldu út. Nigel Pearson að koma inn af krafti hjá Watford sem er með 19 stig, nú stigi frá öruggu sæti.

Wolves er í sjöunda sæti deildarinnar með 30 stig.







Leicester lenti í engum vandræðum með Newcastle en Brendan Rodgers og lærisveinar unnu 3-0 sigur.

Ayoze Perez kom Leicester yfir á 36. mínútu eftir hörmuleg mistök og James Maddison tvöfaldaði forystuna þremur mínútum síðar með stórkostlegu marki.

Þriðja og síðasta markið gerði hinn ungi Hamza Choudhury og lokatölur 3-0. Leicester í öðru sætinu en Newcastle í því tólfta.



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira