Fleiri fréttir

Lögreglan lokar af hluta af Stokkhólmi

Sænska lögreglan lokaði af hluta Stokkhólms í morgun, eftir að íbúi tilkynnti henni að hann hefði séð mann gangandi um með sprengju fasta utan á sér og væri grátandi. Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um málið en það er nú í rannsókn.

Krefjast þess að forsætisráðherrann segi af sér

Æðstu menn stjórnarflokksins í Austur-Tímor hittust í morgun til að ræða framtíð forsætisráðherrans en talið er að reynt verði að koma honum frá. Þúsundir mótmælenda komu saman við þinghúsið í gær og kröfðust þess að Alkatiri segði af sér og að þingið yrði leyst upp en átök hafa verið mikil í landinu vegna málsins. Gusmao forseti landsins, sem nýtur mikilla vinsælda, hótaði í vikunni að segja af sér ef Alkatiri forsætisráðherra gerði það ekki. Þegar Alkatiri neitaði að segja af sér dró Gusmao hótun sína hins vegar til baka. Búist er við að það kmoi í ljós seinna í dag hvað gert verður í málinu.

Japanar fara frá Írak

Japönsku herstöðinni í Írak verður lokað í dag. Enginn japanskur hermaður hefur fallið í átökum í landinu en þeir eru um sex hundruð talsins.

Þurfa tíma

Íranar krefjast þess að Bandaríkjamenn sýni þolinmæði á meðan þeir ákveða hvort þeir taki tilboði þeirra og hætti við auðgun úrans. Bush Bandaríkjaforseti vill svar strax.

Millilandaflug að mestu á áætlun

Millilandaflug er að mestu á áætlun þrátt fyrir aðgerðir starfsmanna IGS, dótturfélags Icelandair sem sér um þjónustustörf í Leifsstöð. En það lagði niður störf í morgun til að reyna knýja fram bætur á kaupum og kjörum sínum. Búist var við meiriháttar seinkunum á flugi til og frá landsins. Svo fór þó ekki. Yfirmenn gengu í störf þeirra sem lögðu niður vinnu og einhverjir starfsmenn tóku ekki þátt í aðgerðunum en þeim lauk klukkan átta. Aðeins urðu smávægilegar breytingar á flugi. Á starfsmannafundi sem haldinn var í gær ákvað starfsfólkið að leggja aftur niður störf næstu helgi, næðust ekki samningar um við Icelandair. Fulltrúar starfsmanna funduðu með Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair, milli klukkan sjö til átta. Starfsmennirnir sögðu fundinn hafa verið góðan og eru þeir bjartsýnir á framhaldið.

Stór hluti starfsmanna IGS hefur lagt niður vinnu

Stór hluti starfsmanna IGS, Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli, hefur lagt niður vinnu. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, segir yfirmenn hafa gengið í nokkur af störfunum til að reyna að koma í veg fyrir miklar tafir. Innritun gengur vel og enn eru engar tafir en hann segir erfitt að segja til um hvað verður. Starfsmenn Flugþjónustunnar eru nú að safnast saman í komusal flugstöðvarinnar.

Skógarhöggsmaður Íslands varði titilinn

Skógarhöggsmaður Íslands varði titil sinn á Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi sem haldið var í Hallormsstaðaskógi í blíðskaparveðri í dag. Lárus Heiðarsson skógræktarráðunautur stóð uppi sem sigurvegari í lok dagsins og heldur því titlinum skógarhöggsmaður Íslands annað árið í röð.

Hungraðir mávar á Sandskeiði

Hungraðir mávar sjást víðs vegar í fæðuleit og hafa þeir til dæmis valdið flugmönnum á Sandskeiði vandræðum. En þar hafa þeir sótt í kjötmjöl sem dreift var á melana þar til uppgræðslu. Margir sem hafa átt leið um Sandskeið síðustu tvær vikurnar hafa eflaust orðið varir við mergð máva skammt við flugvöllinn þar. Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs eru samtök sem standa að uppgræðslu með lífrænum úrgangi og gerðu þau nú í júní tilraun með kjötmjöl til uppgræðsu. Dreifing kjötmjölsins, sem unnið er úr sláturúrgangi, var gerð í samráði við heilbrigisyfirvöld á staðnum og yfirdýralækni og eiga ekki að ógna vatnsbólum á nokkurn hátt. Vegna mávanna var ákveðið að hætta dreifingu kjötmjölsins á Sandskeiði og fara með hluta kjötmjölsins og dreifa því á sandana við Þorlákshöfn þar sem ekki er hætta á að mávar trufli flugumferð.

Condolezza Rice óskar Valgerði til hamingju

Condolezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, óskaði í dag Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra til hamingju með efnahagsárangurinn á Íslandi sem Rice taldi Valgerði að þakka frá árum hennar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í símtali í dag ítrekaði Rice við Valgerði þá ósk að lending næðist í varnarmálaviðræðum ríkjanna á næsta fundi sendinefndanna í næsta mánuði.

Nýbúi útskrifast úr Kennaraháskólanum

Fyrsti nýbúinn frá Asíu útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands í dag. Hún kom til landsins fyrir tólf árum og vonar að hún verði öðrum nýbúum hvatning til þess að feta menntaveginn.

Búast má við töfum tvöþúsund farþega

Starfsmenn Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli ætla að leggja niður störf frá klukkan fimm í fyrramálið til klukkan átta. Ekkert þokast í deilu starfsfólksins og stjórnenda Flugþjónustunnar þrátt fyrir fundarhöld í dag. Farþegar á leið til og frá landi á morgun mega búast við nokkrum töfum. Deilur hafa staðið í nokkurn tíma milli stjórnenda Flugþjónustunnar og starfsmanna, sem meðal annars sinna innritun í flug og hleðslu farangurs í flugvélarnar. Starfsmennirnir eru óánægðir með kjör sín og vinnuaðstöðu og segja þeir álagið oft keyra fram úr hófi. Ákveðið var að boða til setuverkfalls til krefjast bóta á núverandi ástandi. Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri Flugþjónustunnar, fundaði í dag með starfsmönnum hjá öllum deildum. Á fundunum var reynt að afstýra boðum aðgerðum. Gunnar sagði þá hafa rætt málin og útskýrt fyrir stafsmönnum að um ólöglegar aðgerðir væri að ræða sem gætu haft afleiðingar í för með sér. Hann sagði eftir fundina að hann vonaðist til þess að starfsfólkið myndi sinna störfum sínum á morgun en þó væri ómögulegt að segja til um hvort af aðgerðunum yrði. Samkvæmt heimildum NFS er mikill hiti í starfsfólkinu og jókst eftir fundina í dag. Eftir fundi með Gunnari í morgun var þegar boðað til neyðarfundar þar sem allir viðstaddir greiddu atkvæði með aðgerðum á morgun. Starfsmennirnir eru ósáttir við að hafa ekki fengið nein svör í dag og segja viðmót yfirmanna á fundunum síst til þess fallið að lægja öldur. Starfsmennirnir segja ekkert duga nema aðgerðir og segja þá sem verða á vakt á morgun ætla að leggjan niður vinnu og hina að mæta í Flugstöðina og sitja með þeim til að sýna þeim samstöðu en um nokkur hundruð starfsmenn er að ræða. Samkvæmt heimildum NFS er nú enn meiri samstaða meðal starfsfólks og ef bótakrafa verið gerð á hendur þeim eftir aðgerðirnar þá ætli allir starfsmenn að kasta frá sér aðgangskortum og ganga út af vinnustaðnum. Stup Jón Karl. Aðgerirnar, ef af þeim verður, munu hafa áhrif á ferðir um tvö þúsund farþega til og frá landinu. Starfsmenn sem NFS ræddi við í morgun segir erfitt að ráðleggja farþegum hvernig þeir eigi að haga áætlunum sínum á morgun þegar búast má við töfum. En verði af aðgerðum, sem allt bendir til, má búast við að áætlanir riðlist fram eftir degi.

64 talibanar drepnir í gær og í dag

64 herskáir talíbanar hafa verið drepnir í aðgerðum bandamanna í Afganistan í gær og í dag. Aðgerðirnar eru til komnar vegna vaxandi ofbeldis í Afganistan en það hefur ekki verið meira frá því að bandamenn steyptu stjórn Talibana af stóli árið 2001.

Unglingsstúlkur í brjóstastækkanir

Dæmi eru um að stúlkur allt niður í fimmtán ára aldur leiti til lýtalækna til að breyta útliti sínu. Lýtalæknar segja að slíkt sé aðeins gert í undantekninga tilfellum og þá helst ef sálfræðingur vísi þeim til þeirra. Lýtalæknirinn Ottó Guðjónsson sagðist kannast við að svo ungar stúlkur gengjust undir útlitsbreytingar þó hann legði á það ríka áherslu að slíkt væri aðeins gert í undantekninga tilvikum.

Stefnir í vinnustöðvun á Keflavíkurflugvelli

Enn er stál í stál í deila starfsfólks og stjórnenda Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt upplýsingum NFS hafa fundir framkvæmdastjóra með starfsmönnum í morgun ekki skilað tilætluðum árangri og komið í veg fyrir vinnustöðvun í fyrramálið.

Hluti lyflækningadeildar í einangrun

Hluti af lyflækningadeild Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvoginum hefur verið sett í einangrun eftir að veirusýking kom þar upp. Á deildinni eru þrettán sjúklingar og nokkrir starfsmenn og hefur hluti þeirra fengið veirusýkinguna sem felur í sér uppsöl og niðurgang.

Vélarvana við strendur Grindavíkur

Lítill fiskibátur varð vélarvana úti fyrir ströndum Grindavíkur laust fyrir hádegi . Starfsmenn Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar þar í bæ kváðust hafa sent út bát af öryggisátæðun sem væri að fylgja skipverjum til hafnar.

Framleiðandinn Aaron Spelling látinn

Sjónvarpsframleiðandinn Aaron Spelling lést í gær á heimili sínu í Los Angeles, áttatíu og þriggja ára að aldri. Spelling fékk heilablóðfall fyrr í mánuðinum. Hann var afkasta mikill framleiðandi og eftir hann liggja fjölmargar kvikmyndir og sjónvarpsþættir.

Dauðarefsing afnumin á Filippseyjum

Gloria Arroyo, forseti Filippseyja, undirritaði í morgun lög sem afnema dauðarefsingu í landinu. Dauðarefsing var afnumin á Filippseyjum 1987 en aftur leyfð með lögum sex árum síðar. Sjö hafa verið teknir af lífi síðan þá.

Lík eins námamanns af 65 fundið

Björgunarsveitarmenn fundu í gær lík námamanns sem var einn 65 sem festust í námu í Mexíkó í febrúar. Sprenging var í námunni og sátu mennirnir fastir og ekkert gekk að komast að þeim. Björgunarmenn leita nú að líku hinna.

Tómas Zoëga verður ekki aftur yfirlæknir

Tómas Zoëga hefur látið af störfum við Landspítala Háskólasjúkrahús. Hæstiréttur Íslands úrskurðaði fyrr í mánuðinum að tilfærsla Tómasar í starfi hafi verið ólögmæt.

Átök lögreglu og landtökufólks í Perú

Til átaka kom milli lögreglu og landtökumanna í útjaðri Lima, höfuðborgar Perú, í gær. Fólkið hafði reist sér bráðabirgðahúsnæði á svæðinu og var lögregla send til að reka það á brott og jafna húsin við jörðu. Ekkert leyfi hafði fengist fyrir því að byggja hús þarna en þau voru reist fyrir sex árum.

Kattholt yfirfullt og fjárvana

Kattholt er yfirfullt og fjárvana. Formaður Kattavinafélags Íslands á í deilum við nágrannasveitarfélögin um greiðslur fyrir dýrin. Sífellt færist í aukana að kettir séu skildir eftir í pappakössum á þröskuldi Kattholts auk þess sem kettir finnast á vergangi hingað og þangað um höfuðborgarsvæðið.

Þrír teknir á ofsahraða

Lögreglan á Keflavíkurflugvelli gómaði í nótt þrjá ökumenn á ofsahraða á Strandarheiði. Sá sem hraðast ók var á 182 km. Hann var sviptur ökuskírteininu á staðnum en við það kom í ljós að pilturinn var ekki kominn með fullgilt skírteini. Í síðustu viku varð slys á þessu svæði og segir lögreglan að það sé leitt að sjá að slíkir atburðir hafi ekki þau áhrif að ökumenn sjái sóma sinn í að aka á skikkanlegum hraða.

Missti stjórn á bíl sínum

Ölvaður ökumaður missti stjórn á bíl sínum í beygju við gatnamót Sæbrautar og Lauganesvegar í Reykjavík um klukkan sex í morgun, með þeim afleiðingum að hann hafnaði á ljósastaur. Minniháttar meiðsl urðu á bílstjóra og tveimur farþegum sem með honum voru.

Strandaði á sandrifi

Einn var fluttur á slysadeild eftir að skemmtibátur strandaði á sandrifi skammt frá Snarfarahöfn á fyrsta tímanum í nótt. Fimm voru um borð í bátnum. Kona sem flutt var á slysadeild er ekki talin mikið slösuð.

Klink og bank samkomustaður unglinga

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað að gamla Klink og bank húsinu við Brautarholt um korter yfir átta í kvöld í þriðja sinn á skömmum tíma. Búið er að slökkva eldinn en slökkviliðsmenn vinna nú að því að reykræsta húsið.

Breytt skipting Dagsbrúnar

Og fjarskipti er nú dótturfélag Dagsbrúnar en fyrirtækið var áður hluti af móðurfélaginu Dagsbrún. Tekin var ákvörðun um þetta á hluthafafundi í dag. Með breytingunni er verið að fylgja eftir kröfum Samkeppnisráðs um að fjarskiptafyrirtæki og fjölmiðlafyrirtæki séu aðskild. Megin dótturfyrirtæki Dagsbrúnar eru nú þrjú Og fjarskipti, Kögun og 365 prent- og ljósvakamiðlar sem meðal annars rekur NFS. Breytingin hefur engin áhrif á rekstur fyrirtækjanna.

Brotist inn í sumarbústaði

Sumarbústaðareigendum tveggja bústaða í Galtarholti í Borarbyggð brá heldur betur í brún þegar þeir komu í bústaði sína nú undir kvöldið. Brotist hafði verið inn í bústaði þeirra í gærkvöldi eða í nótt. Höfðu þjófarnir hina ýmsu hluti á brott með sér verkfæri, hljómflutningstæki og myndbandstæki.

Loforð svifu um Austurvöll

Loforðasneplar svifu um loftin blá við Austurvöll í dag, í gjörningi ungra listamanna, og áttu að minna á svikin eða gleymd loforð stjórnmálamanna. Uppátækið fór þó heldur fyrir brjóstið á þingvörðum, sem þurftu að tína upp papparuslið af lóð Alþingis.

Tveir árekstrar í Kömbunum

Tveir árekstrar urðu neðarlega í Kömbunum og ullu töfum á umferð. Fjórir bílar eru mjög skemmdir en ekki urðu mikil meiðsl á fólki. Sjúkrabíll fór á staðinn og dráttarbílar fjarlægðu bílana sem voru óökufærir.

Hlutfall kvenna í embættum sjálfstæðismanna í borginni 41%

Landssamband sjálfstæðiskvenna vísar ásökunum minnihlutans um að ekki sé hugað að jafnréttismálum í borginni aftur til heimahúsanna. Hlutfall kvenna í þeim embættum borgarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa er rúmlega 41%. Framsóknarflokkurinn stendur sig þó sýnu verst allra flokka.

Björn segir varnarmálastefnu byggða á óskhyggju

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra telur að það hafi verið óskhyggja að vænta þess að Bandaríkjastjórn samþykkti kröfur íslenskra stjórnvalda um loftvarnir. Hann telur að riftun samningsins sé meiri hótun gagnvart NATO en bandaríkjamönnum.

Rekinn en fær milljarð

Þórður Már Jóhannesson, sem rekinn var úr starfi forstjóra Straums-Burðaráss eftir 10 mánuði hagnast um milljarð króna á kaupréttarsamningum. Magnús Kristinsson gerði þennan samning við hann áður en formlega var gengið frá sameiningu Straums og Burðaráss

Forsetinn skammar ísraelska sendiherrann

Ólafur Ragnar Grímsson forseti lenti í rifrildi við sendiherra Ísraels á Bessastöðum samkvæmt frétt ísraelsks fréttavefs. Ástæðan var meðferð landamæravarða í Ísrael á forsetafrúnni. Sagt er að fundurinn hafi endað með því að forsetinn vísaði sendiherranum á dyr og skellti hurðum á eftir. "Litrík frásögn og færð í stílinn" - segir forsetaembættið.

Ætlar að leita réttar síns

Helgi Hermannsson fyrrverandi dagskrárstjóri Skjás eins ætlar að leita réttar síns og fara fram á bætur fyrir dómstólum. Hann ákvað þetta eftir að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar hefðu brotið gegn persónuvernd með því að skoða tölvupóst Helga.

Forseti Íslands afhjúpar listaverk í Hull

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og John Precott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, voru viðstaddir þegar listaverk eftir Steinunni Þórarinsdóttur var afhjúpað í Hull í Bretlandi í dag, til minningar um breska sjómenn sem létust á Íslandsmiðum. Sams konar verk verður síðan vígt í Vík í Mýrdal í næsta mánuði.

Býður fólki að græða og gefa af sér um leið

Íslendingum gefst nú kostur á nýrri tegund netviðskipta. Bergur Ísleifsson rekur vef þar sem fólki er boðið að kaupa áskrift að þurrmat sem sendur er til sveltandi barna í þriðja heiminum. Tilgangurinn er að græða pening og búa til betri heim um leið.

Segir umræðu þarfa um stöðu varnarmála

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir í leiðara blaðsins í dag að hótun um uppsögn varnarsamningsins ef herþoturnar yrðu fjarlægðar af Keflavíkurflugvelli, hafi beinlínis verið óskynsamleg og Íslendingum ekki til framdráttar. Þá segir hann stjórnvöld hafa stuðst við lélega ráðgjöf í varnarmálum.

Samgöngumál ósættanleg með öllu

Ástand í samgöngumálum milli lands og Vestmannaeyja er óásættanlegt með öllu, að mati hóps þjónustuaðila og áhugamanna um ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Hópurinn óskar eftir nýju gangmiklu skipi svo fjótt sem auðið er og að flug með 30-50 sæta flugvélum verði komið á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja þegar í stað

Miðnæturhlaup í Laugardalnum

Hið árlega Miðnætur- og Ólympíufjölskylduhlaup fer fram í kvöld klukkan tíu við Laugardalslaug. Þetta er í fjórtánda sinn sem hlauið er haldið og hefur þátttakendur fjölgað ár frá ári. Enn er hægt að skrá sig í hlaupið en hægt er að skrá sig í þriggja kílómetra skemmtiskokk án tímatöku og fimm og tíu kílómetra hlaup með tímatöku. Hlaupið er haldið í tengslum við Jónsmessumót fjölskyldunnar sem verður í Laugardalnum, Heiðmörk og Viðey í kvöld.

Sjá næstu 50 fréttir