Innlent

Nýbúi útskrifast úr Kennaraháskólanum

Fyrsti nýbúinn frá Asíu útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands í dag. Hún kom til landsins fyrir tólf árum og vonar að hún verði öðrum nýbúum hvatning til þess að feta menntaveginn.

565 kandídatar brautskráðust úr Kennaraháskóla Íslands í dag og hafa aldrei fleiri kandídatar útskrifast úr skólanum í einu. Athöfnin var í Laugardalshöll og var Lizel Renegado Christensen ein útskriftarnema. Hún er nú útskrifuð úr grunnskólakennarafræði með tónmennt sem aðalfag. Hún segir erfitt hafa verið að samlagast íslensku samfélagi.

Hún segir skipta öllu máli að læra íslensku því þá sé mun auðveldara að búa hér og samlagast landi og þjóð. Hún segir íslenskuna þó mjög erfitt mál til að læra. Hún telur mikilvægt að nýbúar, sérstaklega þeim sem kom hingað á miðjum grunnskólaaldri eða eftir fái góðan stuðning svo þeir hafi sömu möguleika og þeir sem fæddir eru á Íslandi.

Liezel telur gott fyrir börn frá öðrum löndum að hafa kennara innan skólans sem þekkja það hvernig er að vera nýbúi á Íslandi og á það meðal annars þátt í þeirri ákvörðun hennar að verða kennari. Þá telur hún líka að árangur hennar geti orðið öðrum nýbúum hvatning.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×