Innlent

Samgöngumál ósættanleg með öllu

Ástand í samgöngumálum milli lands og Vestmannaeyja er óásættanlegt með öllu, að mati hóps þjónustuaðila og áhugamanna um ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Hópurinn óskar eftir nýju gangmiklu skipi svo fjótt sem auðið er og að flug með 30-50 sæta flugvélum verði komið á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja þegar í stað

Í ályktun hópsins kemur fram að Herjólfur sé nú þegar fullbókaðar í allt sumar og útilokað fyrir hópa að fá flug frá Reykjavík. Ef haldi fram sem horfir, sjái ferðaþjónustuaðilar fram á hrun í starfsemi ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Hópurinn telur að þrátt fyrir loforð þingmanna um úrbætur í samgöngumálum hafi ekkert verið gert og loforð svikin. Hann bendir á að starfshópurinn sem samgönguráðherra skipaði til að fjalla um samgöngur við Vestmannaeyjar í maí 2004, hefði núna fyrst verið að senda frá sér ályktun sem hljómaði svo "að skoða ætti nánar þá lausn að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru."

Hópurinn hefur fengið sig fullsaddan á viðbragðsleysi ríkisstjórnar og óskar eftir skjótum viðbrögðum ráðamanna svo ekki hljótist enn meiri skaði en nú þegar er orðinn. Hann segir Vestmannaeyinga ekki vera annars eða þriðja flokks borgara í þessu landi og að þeir óski eftir að litið verði á þá sem meðborgara með sömu réttindi og aðra landsmenn í samgöngumálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×