Sport

Búast við metáhorfi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Patrick Mahomes verður í eldlínunni í leik kvöldsins, sem búist er við að fleiri stilli inn á en nokkurn tíma áður á einn og sama deildarleikinn í NFL.
Patrick Mahomes verður í eldlínunni í leik kvöldsins, sem búist er við að fleiri stilli inn á en nokkurn tíma áður á einn og sama deildarleikinn í NFL. Amy Kontras/Getty Images

Gert er ráð fyrir því að leikur Dallas Cowboys og Kansas City Chiefs í NFL-deildinni í kvöld fái mest áhorf í sögu deildarinnar. Þakkargjörðarhátíðin verður haldin heilög með amerískum fótbolta í dag.

Bæði Kansas og Dallas þurfa sigur í leik dagsins í baráttu um sæti í úrslitakeppninni – Höfðingjarnir frá Kansas-borg hafa unnið sex leiki og tapað fimm en Kúrekarnir frá Dallas unnið fimm, tapað fimm og gert eitt jafntefli.

Bæði lið koma gíruð inn í leik kvöldsins eftir magnaða endurkomu Cowboys gegn Philadelphia Eagles á sunnudaginn og þá vann Kansas City 23-20 sigur á Indianapolis Colts eftir framlengingu, í leik sem í raun bjargaði tímabili liðsins.

Leiknum verður streymt beint á bæði Paramount+ og Fubo streymisveitunum og fastlega gert ráð fyrir því að hann fái mesta áhorf sem stakur deildarleikur hefur hlotið í sögu NFL-deildarinnar.

Metið var sett á sama degi fyrir þremur árum þegar 42 milljónir horfðu á þakkargjörðarleik Cowboys við New York Giants. Það er engin tilviljun að NFL-deildin hafi lagt upp leik milli tveggja vinsælustu liða deildarinnar hvað áhorf varðar í dag – stefnt er að því að bæta áhorfsmetið í dag.

Þrír leikir fara fram í NFL-deildinni í dag og þeir verða allir þrír sýndir á Sýn Sport 2.

Fyrst er leikur Detroit Lions (7-4) og Green Bay Packers (7-3-1) klukkan 18:00. Sá er ekki síður mikilvægur en liðin berjast innbyrðis um toppsæti norðurriðils NFC-deildarinnar ásamt Chicago Bears (8-3).

Dallas Cowboys og Kansas City Chiefs mætast klukkan 21:30 og þá eigast við Baltimore Ravens og Cincinnati Bengals klukkan 1:20 í nótt þar sem búist er við endurkomu Joe Burrow í leikstjórnandastöðu síðarnefnda liðsins.

Allir þrír þakkargjörðarleikirnir verða sýndir beint á Sýn Sport 2.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×