Innlent

Til­laga Sjálf­stæðis­manna um gjaldfrjáls stæði á messu­tíma felld

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umhverfis- og skipulagssvið komst að þeirri niðurstöðu að tillaga Sjálfstæðismanna myndi erfiða fólki að fá stæði nærri kirkjum.
Umhverfis- og skipulagssvið komst að þeirri niðurstöðu að tillaga Sjálfstæðismanna myndi erfiða fólki að fá stæði nærri kirkjum. Vísir/Vihelm

Tillaga Sjálfstæðismanna í Reykjavík um að falla frá bílastæðasektum á messutíma var felld í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar í gær. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar greiddu atkvæði með tillögunni en fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalista á móti.

Tillagan var fyrst lögð fram 18. september síðastliðinn en hún felur í sér að borgarráð samþykki að beina því til Bílastæðasjóðs Reykjavíkur að sekta ekki ökumenn á gjaldskyldum bílastæðum við kirkjur á messutíma.

„Fólk er misjafnlega gott til gangs og margir messugestir búa utan sóknamarka og ferðast því langar leiðir til að sækja messu auk þess sem messusókn getur verið skylda, t.d. meðal kaþólskra,“ segir í tillögunni.

Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, sem komst að þeirri niðurstöðu að ef gjaldskyldu yrði aflétt á messutíma eða gefið út að ekki yrði eftirlit á þeim tíma, yrði erfiðara fyrir kirkjugesti að finna laus stæði og gangur verða lengri en ella.

„Tilgangur gjaldskyldu er m.a. stýring á nýtingu bílastæða, með það að markmiði að á sama tíma og að bílastæði séu vel nýtt séu einnig laus stæði fyrir þá sem á þeim þurfa að halda og eiga erindi á svæðið, kirkjugesti sem aðra,“ sagði í umsögninni.

„Gjaldskyldan er þannig notuð til þess að stuðla að því að bílastæði séu laus fyrir þá sem þurfa á þeim að halda, eins og kirkjugesti, en ekki sem eiginleg greiðsla fyrir það að leggja í stæði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×