Lífið

Fellaskóli vann Skrekk

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Úr atriði Fellaskóla.
Úr atriði Fellaskóla. Anton Bjarni

Fellaskóli vann Skrekk 2025, hæfileikakeppni grunnskóla í Reykjavík. Atriði nemendanna fjallaði um pressu sem fylgir því að upplifa væntingar annarra.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri tilkynnti sigurvegarann en keppnin var haldin í Borgarleikhúsinu líkt og venjan er. 

Atriði Fellaskóla ber nafnið Þrýstingsbylgja. Atriðið fjallaði um álagið sem ungmenni upplifa í samfélaginu og mikilvægi þess að standa með sjálfum sér og elta sína drauma.

„Ég er ekki strengjabrúða,“ sagði voru lokaorð atriðsins.

Átta grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu komust í úrslit og kepptust um verðlaunabikarinn. Meðal Fellaskóla voru Foldaskóli, Klettaskóli, Hagaskóli, Árbæjarskóli, Háteigsskóli, Breiðholtsskóli og Langholtsskóli. Þrjár undankeppnir voru haldnar þar sem samtals 742 nemendur tóku þátt fyrir hönd 25 skóla.

Salka Gústafsdóttir leikkona og Bjarni Kristbjörnsson leikaranemi sáu um að kynna atriðin en Herra Hnetusmjör steig einnig á svið og flutti lagið Elli Egils.

Í ár tóku 25 skólar þátt í Skrekk og 742 unglingar þátt í undanúrslitum. Átta skólar komust áfram í úrslitin.

Fellaskóli hlaut jafnframt Skrekkstunguna

Bókmenntaborgin og Miðja máls og læsis veita verðlaun fyrir skapandi notkun á íslensku í Skrekk. Verðlaunin heita Skrekkstungan, nafn sem var valið af unglingum 2022. Markmið verðlaunanna er að vekja áhuga unglinga á íslensku sem efnivið sköpunar í sviðslistum.

Í ár hlaut Fellaskóli Skrekkstunguna en í rökstuðningi dómnefndar Skrekkstungunnar segir:

„Atriðið sem fær Skrekkstunguna árið 2025 nýtir íslensku á skapandi hátt í söng, tali og einræðu. Atriðið er á vönduðu og fallegu máli, ljóðrænt og seiðandi en líka skýrt og aðgengilegt. Málsnið hvers hluta er viðeigandi fyrir efni hans, tungumálið er óþvingað og slípað og hvert orð þjónar atriðinu. Flytjendur nota tungumálið í eigin þágu og er titillinn þar engin undantekning.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.