Enski boltinn

Haaland fór sem Jókerinn að versla bleyjur

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og Isabel Haugseng Johansen skelltu sér í langþráð partý eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn í lok síðasta árs.
Erling Haaland og Isabel Haugseng Johansen skelltu sér í langþráð partý eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn í lok síðasta árs. Skjáskot/Youtube

Erling Haaland fór í fyrsta sinn á ævinni í grímubúning, í tilefni hrekkjavökuteitis sem hann fór í með Isabel Haugseng Johansen kærustu sinni og barnsmóður. Hann fór í gervi Jókersins og kom íbúum Manchester-borgar skemmtilega á óvart.

Óhætt er að segja að gervið hafi verið vel heppnað og Haaland gæti eflaust spjarað sig sem illmenni í Batman-myndum ef hann væri ekki upptekinn við að raða inn mörkum fyrir Manchester City.

Haaland birti skemmtilegt myndband af sér í búningnum á nýrri YouTube-síðu sinni, sem sjá má hér að neðan.

„Þetta er alveg sjúkt,“ sagði Haaland þegar hann skoðaði sjálfan sig í speglinum, eftir að hafa viðurkennt að hann hefði í raun aldrei áður farið í svona gervi.

Kærasta hans, Isabel Haugseng Johansen, var líka ánægð með gervið og sagðist hlakka til að geta gert eitthvað með sínum manni eftir að þau eignuðust sitt fyrsta barn í lok síðasta árs. Hún var sjálf í búningi Kattarkonunnar.

Áður en þau fóru saman í partý skellti Haaland sér út að versla bleyjur, í Jóker-búningnum, og heilsaði upp á íbúa Manchester sem voru flestir fljótir að átta sig á hver væri þarna á ferð, enda ekki margir með sömu líkamsbyggingu og Norðmaðurinn stæðilegi.

Næsti leikur Haaland og félaga er stórleikur á sunnudaginn gegn Bournemouth sem er í 2. sæti, með tveimur stigum meira en City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×