Bíó og sjónvarp

„Hættið að senda mér gervi­greindar­mynd­bönd af pabba“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Feðginin Zelda og Robin Williams á frumsýningu Old Dogs árið 2009, fimm árum áður en hann lést.
Feðginin Zelda og Robin Williams á frumsýningu Old Dogs árið 2009, fimm árum áður en hann lést. Getty

Leikstjórinn Zelda Williams hefur biðlað til fólks að hætta að senda henni gervi­greindar­mynd­bönd af föður hennar heitnum, Robin Williams, sem lést árið 2014.

Williams sem leikstýrði frumraun sinni á stóra skjánum, rómantísku gamanmyndinni Lisu Frankenstein, í fyrra gaf nýverið frá sér yfirlýsingu í Instagram-hringrás sinni.

Zelda hefur starfað sem leikkona og leikstjóri.Getty

„Vinsamlegast, hættið að senda mér gervi­greindar­mynd­bönd af pabba,“ skrifaði hún í yfirlýsingunni um föður sinn, leikarann Robin Williams sem stytti sér aldur fyrir ellefu árum, þá 63 ára gamall.

„Ekki halda að ég vilji sjá þetta eða að ég muni skilja, ég geri það ekki og mun ekki gera það. Ef þið eruð bara að reyna að trolla mig þá hef ég séð það verra,“ sagði hún jafnframt. 

Slík myndbönd væru heimskuleg tíma- og orkusóun og „ekki það sem hann hefði viljað“ að hennar sögn.

Dreifing gervigreindarmyndbanda á samfélagsmiðlum hefur færst í aukana á samfélagsmiðlum og hefur látið fólk verið lífgað þar við í ýmsum tilgangi. Eitt dæmi sem vakti nýlega athygli var þegar tónlistarmaðurinn Rod Stewart notaði á tónleikum sínum gervigreindarmyndbönd af nýlátnum Ozzy Osbourne með öðrum látnum stjörnum.

„Að horfa á arfleifð raunverulegs fólks smættað niður í ,þetta lítur og hljómar lauslega eins og þau svo það er nóg,' bara svo annað fólk geti dælt út hræðilegu TikTok-sulli þar sem þeim er stýrt eins og brúðum er ærandi,“ sagði Zelda.

„Þú ert ekki að gera list, þú ert að búa til ógeðslegar, ofurunnar pulsur úr lífi fólks, úr lista- og tónlistarsögunni, sem þú treður sína ofan í kok annarra í von um að þeir muni gefa þér þumalinn og fíla þetta. Ógeðslegt,“ skrifaði hún jafnframt.

Loksins bað hún fólk um að hætta að kalla gervigreind framtíðina þegar hún væri léleg endurvinnsla á fortíðinni. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Zelda gagnrýnir gervigreindarendurlífganir af föður hennar heitnum. 

Feðginin saman á rauða dreglinum árið 2004.Getty

Árið 2023  voru gervigreindarendurgerðir á leikurum hluti af samningaviðræðum SAG-AFTRA, verkalýðsfélagi starfsfólks í bandarísku sjónvarpi og útvarpi, við kvikmyndastúdíóin. Zelda var meðal meðlima verkalýðsfélagsins sem gagnrýndi áformin harðlega.

„Ég er ekki hlutlaus rödd í baráttu SAG gegn gervigreind,“ sagði Zelda þá. 

„Í mörg ár hef ég orðið vitni af því hvernig fólk vill þróa þessi líkön til að skapa/endurgera leikara sem geta ekki veitt samþykki, eins og pabba. Þetta er ekki fræðilegt, þetta er mjög mjög raunveruleg.“

Gervigreindarendurgerðir sem þessar væru í besta falli „lélegar eftirmyndir af góðu fólki“ og í versta falli „hræðilegt Frankenstein-legt skrímsli“.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.