Sport

Til­búinn að láta nýju stjörnuna í þunga­vigtinni mæta Usyk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Moses Itauma er spáð miklum frama.
Moses Itauma er spáð miklum frama. getty/Richard Pelham

Þjálfari enska hnefaleikakappans Moses Itauma er tilbúinn að láta hann berjast við heimsmeistarann Oleksandr Usyk.

Hinn tvítugi Itauma er af mörgum talin helsta vonarstjarna þungavigtarinnar en mikla athygli vakti þegar hann sigraði Dillian Whyte örugglega í síðasta mánuði.

Itauma hefur unnið alla þrettán bardaga sína á atvinnumannaferlinum, þar af ellefu með rothöggi. Þjálfari hans, Ben Davison, telur hann tilbúinn til að mæta Usyk.

„Ég myndi taka þennan bardaga. Þetta er bara sigurstaða. Moses hefur ekki barist við neinn eins og Usyk en Usyk hefur að sama skapi ekki barist við neinn eins og Moses. Ég held að hann myndi segja þetta sjálfur,“ sagði Davison.

„Hann væri klár í þetta. Hann er með hugarfarið: Ef þú ætlar að stökkva út í djúpu laugina er eins gott að taka stökkið. Vonandi fáum við bardaga um heimsmeistaratitilinn.“

Talið er að Itauma vilji berjast aftur á þessu ári og meðal þeirra sem hafa verið nefndir sem mögulegir andstæðingar eru reynsluboltarnir Jermaine Franklin og Filip Hrgovic. Davison sagði samt að þeir væru ekki spenntir fyrir að berjast við Itauma.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×