Erlent

Frakk­land viður­kennir Palestínu sem sjálf­stætt ríki

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Macron greindi frá ákvörðun sinni á X.
Macron greindi frá ákvörðun sinni á X. EPA

Emmanuel Macron Frakklandsforseti greinir frá því í samfélagsmiðlafærslu að Frakkland viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt ríki. 

Hann segist ætla að lýsa því opinberlega yfir á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september. 

„Það verða að nást samningar um vopnahlé, það þarf að sleppa öllum gíslum og neyðaraðstoð verður að berast Gasabúum. Þá er aflétting hernaðaryfirráða Hamas nauðsynleg og enduruppbygging á Gasa. Loks er mikilvægt að byggja up Palestínuríki, og tryggja að þar verði hægt að búa,“ segir meðal annars í færslu Macron á X. 

Yfirlýsing Macron markar tímamót í afstöðu Evrópuríkja gagnvart stríðsrekstri Ísraela á Gasa. Í umfjöllun France24 segir að Frakkland sé nú stærsta og valdamesta ríkið í Evrópu sem hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki. Frakkland er nú í hópi 142 ríkja sem hafa viðurkennt Palestínu sem ríki en bæði Ísrael og Bandaríkin eru andvíg slíkri viðurkenningu.

Macron var meðal ráðamanna sem buðu Ísrael sinn stuðning eftir hryðjuverkaárásir Hamas á tónlistarhátíð í Ísrael í október 2023. Um 1200 manns létust í árásunum. Síðan þá hefur Ísraelsher drepið yfir fimmtíu þúsund manns á Gasa, þar af rúmlega fimmtán þúsund börn. 

Með samfélagsmiðlafærslu Macron fylgir bréf sem hann skrifar Mahmoud Abbas forseta Palestínu vegna ákvörðunar hans. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×