Lífið

Kate Beckinsale lætur tröllin heyra það

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kate Beckinsale lætur netverja heyra það.
Kate Beckinsale lætur netverja heyra það. EPA-EFE/VICKIE FLORES

Kate Beckinsale hefur látið netverja heyra það eftir að margir rituðu ummæli undir nýjustu færslur hennar á samfélagsmiðlinum Instagram og lýstu yfir áhyggjum af því að hún væri orðin of mjó. Beckinsale segir síðastliðið ár hafa verið eitt það erfiðasta í hennar lífi vegna áfalla í persónulega lífinu og vegna veikinda.

Breska leikkonan birti myndir af sér í búning fyrir væntanlega kvikmynd hennar, Stolen Girl. Í kjölfarið hrönnuðust ljótar athugasemdir við myndirnar þar sem netverjar lýstu yfir vanþóknun á útliti leikkonunnar. Beckinsale var fljót að svara fyrir sig og benda á að hún hafi upplifað hörmungarár, eins og hún lýsir því.

„Ég hjúkraði stjúpföður mínum á banalegunni fyrr á þessu ári. Það er margt í gangi hjá móður minni. Ég er að jafna mig eftir að hafa horft upp á tvo feður mína falla frá, einn þegar ég var fimm ára og hinn í janúar á þessu ári,“ skrifar leikkonan á einlægu nótunum.

Í umfjöllun Page Six kemur fram að stjúpfaðir hennar Roy Battersby hafi látist í janúar. Þá hafi hún gengið fram á föður sinn eftir að hann lést úr hjartaáfalli þegar hún var barnung.

„Ég missti sálufélaga köttinn minn eftir nítján ára samfylgd á síðasta ári. Ég eyddi sex vikum á spítala eftir að hafa stöðugt ælt blóði,“ skrifar leikkonan jafnframt. Hún segir ástæðuna hafa verið þá að hún hafi verið með illvígt magasár.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×