Tónlist

Tón­leikum Nicki Minaj af­lýst vegna fíkniefnahandtöku

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Flugvallarlögreglan í Amsterdam handtók hana eftir að hafa fundið kannabis í töskunum hennar.
Flugvallarlögreglan í Amsterdam handtók hana eftir að hafa fundið kannabis í töskunum hennar. AP/Charles Sykes

Tilætluðum tónleikum rappstjörnunnar Nicki Minaj í Manchester í gær var aflýst vegna óvæntrar handtöku stjörnunnar á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Hún var handtekin vegna gruns um að vera með fíkniefni undir höndum og var á endanum sektuð og sleppt lausri.

Það var þó ekki fyrr en eftir nokkurra tíma dvöl í hollenskum fangaklefa sem olli því að henni tókst ekki að komast til Manchester í tæka tíð til að halda tónleikana. Tónleikarnir áttu samkvæmt áætlun að hefjast klukkan hálftíu í gærkvöldi að staðartíma í tónleikahöllinni Co-op Live. 

Um tuttugu þúsund aðdáendur voru staddir í höllinni, sem er jafnframt sú stærsta á Bretlandi, þegar tilkynnt var um aflýsingu tónleikanna. Tónleikagestir létu óánægju sína í ljós með miklu púi, að sögn Guardian.

Hún biður aðdáendur sína innilega og hjartanlega afsökunar í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlinum X.

„Þeim lukkaðist áætlun sín að leyfa mér ekki að koma fram í kvöld,“ skrifar stjarnan án þess að taka fram hvern hún er að ásaka um gjörninginn beinum orðum.

„Ég bið ykkur innilega og hjartanlega afsökunar. Þeir vissu nákvæmlega hvernig þeir gætu meitt mig í dag en þetta líður hjá, eins og allt annað,“ skrifar hún þá.

Hún segir að tónleikunum sem áttu að fara fram í gær verði fundin ný dagsetning og lofaði miðahöfum „aukabónus“ vegna atviksins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×