Bíó og sjónvarp

Syngja með Grease á fyrstu skynsegin sýningu Ís­lands­sögunnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Elva Dögg Gunnarsdóttir er skipuleggjandi skynsegin sýningarinnar sem fram fer í Bíó Paradís í kvöld.
Elva Dögg Gunnarsdóttir er skipuleggjandi skynsegin sýningarinnar sem fram fer í Bíó Paradís í kvöld. Vísir/Vilhelm

Blásið verður til sérstakrar sing-along sýningar á Grease í Bíó Paradís fyrir skynsegin fólk í kvöld. Skipuleggjandi segir um að ræða fyrstu sýninguna sinnar tegundar hér á landi en gripið verður til ýmissa ráðstafana til að tryggja viðeigandi skynsegin skilyrði í kvikmyndahúsinu.

„Við erum fólkið sem förum í Kringluna í hálftíma og þurfum svo að fara heim að leggja okkur af því að það er svo mikið allskonar áreiti sem við erum ekki alveg að höndla,“ segir Elva Dögg Gunnarsdóttir uppistandari og einn skipuleggjanda í samtali við Vísi. Elva er sjálf með tourette og er skynsegin. Hún segir skynsegin frábært hugtak sem nái til breiðs hóps af fólki.

„Ef einhver segir við þig: „Ég er skynsegin“ þá getur það verið svo margt. Hann getur verið á rófinu, hann getur verið með ADHD, hann getur verið með áráttu- og þráhyggjuröskun eða tourette eða bara whatever, þetta er allt sem veldur því að maður er með aðeins öðruvísi skynjanir en flestir.“

Sjálf bar Elva það undir hóp skynsegin fólks á Facebook hverskonar skilyrði væri best að hafa til staðar í kvikmyndasal. Sýningin er í samtarfi við KÓSÝ KINO verkefnið og Kino Usmev og hefst klukkan 18:30 í kvöld. Þar kennir ýmissa grasa en í Bíó Paradís í kvöld mun skynsegin sýning þýða að:

  • Öllu áreiti í húsinu, tónlist, umgangi og öðru er stillt í hóf
  • Það eru engar auglýsingar né sýnishorn á undan myndinni
  • Ljósin eru hálfkveikt allan tímann
  • Hljóðið er lægra en venjulega
  • Það er ekkert hlé
  • Sýningin er í stórum sal svo það ætti að vera nóg pláss milli fólks
  • Opið er fram og það má fara fram og hvíla sig á myndinni
  • Það má ganga um og hreyfa sig á meðan sýningu stendur
Elva Dögg er þakklát Bíó Paradís fyrir viðburðinn.Vísir/Vilhelm

Fer saman að syngja með og vera skynsegin

Sjálf segist Elva sérstaklega tengja við að finnast óþægilegt að þurfa að þurfa að sitja þétt upp við ókunnuga í bíó. Hún tengi við það verandi með tourette.

„Ef ég fer til dæmis í bíó með vinum þá reyni ég alltaf að fá að sitja á milli einhverra sem ég þekki af því að ég er ekki að trufla þá með kækjunum mínum og fullt af fólki getur ekkert bara setið heila mynd, þarf að fá að fara fram og svona og svo finnst mörgum óþægilegt að vera í alveg myrkvuðum sal.“

Er ekkert áreiti fólgið í því að vera á sing-along sýningu?

„Nei ég held ekki, af því að þetta er söngvamynd skilurðu og fólk fer á svona sýningar eins og partýsýningar hjá Bíó Paradís með þá vitneskju að já ókei, það má syngja með og ég held að fólki finnist það líka bara gaman, af því að þó að maður sé skynsegin þá þýðir það ekki að maður þoli ekki alla hluti. En það eru vissir hlutir sem rosalega margir sem eru skynsegin eiga sameiginlegt að finnast erfiðir.“

Elva segir um að ræða fyrstu skynsegin sýninguna. Hún hrósar Bíó Paradís í hástert og segir skynsegin fólk afar þakklát fyrir framlagið. Hún vonast til þess að sýningin gangi vel og að hægt verði að blása til fleiri sýninga fyrir skynsegin fólk í framtíðinni.

„Svo sjáum við bara hvernig þetta fer í fólk, hvort skynsegin fólk mæti ekki og svona og ég geri bara ráð fyrir því að ef þetta gangi vel að þá verði þetta gert aftur.“

Nóg pláss verður í salnum og tryggt að öllum líði vel.Vísir/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×