Sport

Um­deildur endir í hálfmaraþoni í Peking: Leyfðu honum að vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kínverjinn He Jie vann hálfmaraþonið en á mjög umdeildan hátt.
Kínverjinn He Jie vann hálfmaraþonið en á mjög umdeildan hátt. EPA-EFE/Tamas Vasvari

Skipuleggjendur hálfmaraþonsins í Peking í Kína eru að rannsaka lokin á hlaupi karlanna eftir að það leit út fyrir að keppendur hafi leyft kínverska keppandanum He Jie að vinna.

Tveir kenískir hlauparar, Robert Keter og Willy Mnangat og Eþíópíumaðurinn Dejene Hailu Bikila virtust hægja á sér undir lok hlaupsins og hvetja þann kínverska til að fara fram úr sér. Þessi fjórir keppendur höfðu hlaupið saman nær allt hlaupið.

Eftir keppnina sagði Keníamaðurinn Willy Mnangat að þeir höfðu í raun verið hérar í hlaupinu fyrir Kínverjann.

„Ég var ekki mættur til að keppa. Þetta var ekki keppnishlaup fyrir mig,“ sagði Mnangat. Guardian fjallar um hlaupið.

„Hann er vinur minn. Hann kemur til Kenía og ég var héri fyrir hann í Wuxi maraþoninu. Hann er bara vinur minn, allt í lagi,“ sagði Mnangat við South China Morning Post.

He Jie er kínverskur meistari í maraþonhlaupi en var þarna að keppa í hálfu maraþoni.

„Ég veit ekki af hverjum þeir settu nafnið mitt fyrir ofan keppnisnúmerið í staðinn fyrir að skrá mig inn sem héra. Mitt starf var að stýra hraðanum og hjálpa honum að vinna. Því miður náði hann ekki markmiði sínu sem var að slá kínverska metið,“ sagði Mnangat við BBC.

He kom í mark á tímanum 1:03.44 mín. en hann var einni mínútu og ellefu sekúndum frá því að ná kínverska metinu. Mnangat, Keter og Bikila urðu síðan jafnir í öðru sætinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×