Tónlist

Emelíana Lillý úr FNV vann Söng­keppni fram­halds­skólanna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sigurvegarar kvöldsins fagna að keppni lokinni.
Sigurvegarar kvöldsins fagna að keppni lokinni.

Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna 2024 í kvöld fyrir hönd Framhaldsskóla Norðurlands vestra. Emelíana söng nýja íslenska útgáfu af laginu Never Enough úr kvikmyndinni The Greatest Showman.

Í fréttatilkynningu segir að fulltrúar alls 25 framhaldsskóla hafi stigið á svið í Íþróttahúsinu Iðu á Selfossi fyrr í kvöld. Keppnin var haldin af Marinó Geir Lilliendahl í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Annað sæti hlaut Bára Katrín Jóhannsdóttir frá Verzlunarskóla Íslands. Bára söng lagið Gatnamót eftir Dóru og Döðlurnar. Í þriðja sæti var Jada Birna Long Guðnadóttir frá Menntaskólanum í Tónlist. Hún söng lagið Hero eftir Mariah Carey með nýjum íslenskum texta.

Sigurvegarinn var valinn með símakosningu þar sem atkvæði áhorfenda giltu til helmings á móti atkvæðum dómnefndar. Dómnefnd keppninnar skipuðu þau Ragnhildur Gísladóttir, Elín Sif Halldórsdóttir og Magnús Kjartan Eyjólfsson.

Keppendur komu fram ásamt hljómsveit kvöldsins sem skipuð var af Þorvaldi Þór Þorvaldssyni á trommum, Kjartani Baldurssyni á gítar, Valdimar Olgeirssyni á bassa og tónlistarstjóranum Ingvari Alfreðssyni hljómborðsleikara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×