„Enginn hefur fulla yfirsýn um þann fjölda sem glímir við ópíóíðavanda og misræmis gætir í upplýsingum. Þótt ekki sé rétt að tala um faraldur ópíóíðafíknar er ljóst að vandinn fer vaxandi,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar um nýja skýrslu stofnunarinnar um ópíóðíavanda á Íslandi en þar er fjallað um stöðu, stefnu og úrræði.
Ekki hefur verið í gildi stefna í áfengis- og vímuvörnum frá því að eldri stefna rann sitt skeið árið 2020.Í skýrslunni kemur fram að sú stefna sem síðast hafi verið í gildi, og rann út árið 2020, hafi ekki verið útfærð með aðgerðaáætlun eða tímasettum markmiðum og að því hafi hún aldrei að fullu komið til framkvæmdar.
Ríkisendurskoðun beinir í skýrslunni fjórum ábendingum til heilbrigðisráðuneytis. Að setja upp stefnu og taka skýra forystu, að efla upplýsingaöflun og yfirsýn í málaflokknum. Í þriðja lagi er lagt til að aðgengi verði bætt að bæði meðferðum og þjónustu. Þá segir í skýrslunni að það þurfi að formfesta kröfur og viðmið um viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn.
Framboð meðferðar mótast í grasrót
Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar um skýrsluna segir að framboð meðferðar byggi ekki á opinberri stefnumótun eða mati á þörf fyrir heilbrigðis- og meðferðarþjónustu heldur hafi hún að mestu mótast af og verið á ábyrgð grasrótar- og félagasamtaka og heilbrigðisstofnana á þeirra vegum.
„Ákveðnir hópar fá ekki þjónustu við hæfi, m.a. vegna þess að bráðaþjónusta fyrir fíknisjúka er af skornum skammti, og ýmsar hindranir koma í veg fyrir að einstaklingar fái tímanlega aðstoð við aðkallandi fíknivanda,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að skýrari ramma vanti um viðhaldsmeðferð og skaðaminnkandi þjónustu vegna ópíóíðafíknar. Þá ríkir ágreiningur milli SÁÁ og SÍ um túlkun og skilgreiningar í samningi um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn en ljóst er að mun fleiri fá lyfjameðferð en samningurinn gerir ráð fyrir.
Skýrslan kom út í dag og var samhliða því kynnt var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag. Skýrslan er svokölluð hraðúttekt og er í heildina 41 síða. Hraðúttektir Ríkisendurskoðunar eru upplýsandi og staðreyndamiðaðar skýrslur sem gefa þingi, stjórnsýslu, almenningi, fjölmiðlum og fyrirtækjum greinargóðar upplýsingar um tiltekin mál eða málefni sem erindi eiga við samfélagslega umræðu.
Skýrslan er hér.