Sport

Faðirinn á­kærður fyrir of­beldi gegn norsku hlaupa­bræðrunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Filip Ingebrigtsen, Jakob Ingebrigtsen og Henrik Ingebrigtsen hafa lengi verið í hópi bestu millivegahlaupara heims.
Bræðurnir Filip Ingebrigtsen, Jakob Ingebrigtsen og Henrik Ingebrigtsen hafa lengi verið í hópi bestu millivegahlaupara heims. Getty/Maja Hitij

Norski frjálsíþróttaþjálfarinn Gjert Ingebrigtsen hefur verið ákærður af norsku lögreglunni fyrir að hafa beitt syni sína ofbeldi.

Ingebrigtsen þjálfaði upp þrjá frábæra millivegahlaupara, Henrik, Jakob og Filip, sem allir urðu Evrópumeistarar undir hans stjórn.  Sá yngsti, Jakob, varð einnig Ólympíumeistari og heimsmeistari.

Árið 2022 slitnaði upp úr sambandi bræðranna við föður sinn og þeir komu jafnframt fram og sögðu frá ofbeldi hans. Gjert var mikill harðstjóri og hefur nú sætt lögreglurannsókn í marga mánuði vegna málsins.

Lögmaður hans, John Christian Elden, staðfesti ákæruna við norska ríkisútvarpið. Lögfræðingurinn gerði lítið úr ákærunni en lögfræðingur sona hans er ekki á sama máli.

„Ég get staðfest það að það hefur verið lögð inn ákæra og að það sé rannsókn í gangi. Að mínu mati þá er þetta ekki eitthvað sem mun hverfa, þvert á móti,“ sagði Mette Yvonne Larsen, lögfræðingur Ingebrigtsen bræðranna, í samtali við norska ríkisútvarpið.

Henrik, Jakob and Filip skrifuðu saman pistil í blaðið Verdens Gang þar sem þeir lýstu ofbeldi, óttastjórn og hótunum föður síns í uppeldinu. Hann var þjálfari þeirra í mörg ár eða þar til að þeir slitu sig frá honum veturinn 2022.

Það var vitað að einn af fjölskyldumeðlunum hafði kært föður sinn fyrir ofbeldi. Hann sjálfur hefur hins vegar ávallt neitað því að hafa beitt syni sína ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×