Lífið

Lena Olin verður Hulda Hermannsdóttir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lena Olin mun leika aðalpersónu þríleiks Ragnars Jónassonar
Lena Olin mun leika aðalpersónu þríleiks Ragnars Jónassonar EPA

Sænska leikkonan Lena Olin mun fara með hlutverk lögreglukonunnar Huldu Hermannsdóttur í sjónvarpsseríu sem gerð verður eftir þríleik Ragnars Jónassonar, Dimmu, Drunga og Mistri.

Leikstjóri seríunnar verður eiginmaður Lenu, Lasse Hällström. Hollywood Reporter greinir frá þessu.

Lasse er hvað þekktastur fyrir kvikmynd sína Chocolat, frá árinu 2000, en Lena fór einnig með hlutverk í myndinni. Lena gerði garðinn frægan fyrir leik sinn í Óbærilegum léttleika tilverunnar, frá 1988.

Kvikmyndaver CBS mun fara með framleiðslu á seríunni í samvinnu við True North á Íslandi. Tökur eiga að hefjast á Íslandi síðar á þessu ári. Þar verða fyrstu sex þættirnir kvikmyndaðir, sem byggja á Dimmu. Hollywood Reporter greindi frá þessu nú í dag.

Þríleikur Ragnars um lögreglukonuna Huldu hefur vakið athygli víða um heim. Serían hlaut Palle Rosenkrantz-verðlaunin sem besta þýdda glæpasagan í Danmörku og hlaut samskonar verðlaun á Spáni. Bækurnar hafa einnig komist á metsölulista í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×