Erlent

Freista þess að tryggja að nafn Trump rati ekki á kjör­seðla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gera má ráð fyrir að fleiri áþekk mál verði höfðuð en flestir telja ólíklegt að þau muni skila jákvæðri niðurstöðu.
Gera má ráð fyrir að fleiri áþekk mál verði höfðuð en flestir telja ólíklegt að þau muni skila jákvæðri niðurstöðu. AP/Evan Vucci

Sex kjósendur í Colorado í Bandaríkjunum hafa höfðað mál til að freista þess að koma í veg fyrir að nafn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og núverandi forsetaframbjóðanda, nái inn á atkvæðaseðilinn í ríkinu fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.

Kjósendurnir fara fram á að dómstóllinn í málinu komist að þeirri niðurstöðu að Trump sé ekki kjörgengur sökum framgöngu sinnar í aðdraganda uppþotsins við þinghúsið í Washington 6. janúar 2021 og á meðan það stóð yfir.

Biðla þeir til dómstólsins að útrýma óvissu hvað þetta varðar.

Umræða hefur aukist um kjörgengi Trump síðustu vikur, ekki síst eftir að tveir íhaldssamir lagaprófessorar færðu fyrir því rök í grein í ágúst síðastliðnum að framganga Trump jafngilti uppreisn eða byltingu (e. insurrection).

Trump hvatti bæði stuðningsmenn sína og Mike Pence, þáverandi varaforseta, til að gera það sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir staðfestingu kjörs Joe Biden eftir nýafstaðnar forsetakosningar.

Sá er hvetur til uppreisnar eða byltingar eftir að hafa svarið þess eið að standa vörð um stjórnarskrá Bandaríkjanna er ekki kjörgengur í forsetakosningum, samkvæmt 14. viðauka stjórnarskrárinnar. Sérfræðingar benda hins vegar á að ekki hafi reynt á umrætt ákvæði á okkar tímum.

Útlit er fyrir að reynt verði á kjörgengi Trump víðar en í Colorado en þeir sem höfðuðu málið þar segjast vilja tryggja að rétt kjósenda til að greiða kjörgengum frambjóðanda atkvæði. Sexmenningarnir eru bæði úr röðum Repúblikana og óháðir.

Dómstólar sem munu fjalla um kjörgengi Trump þurfa meðal annars að útkljá það hvað telst vera uppreisn eða bylting, hver sé hæfur til að höfða mál er varðar kjörgengi og hver hafi vald til að framfylgja úrskurðinum ef niðurstaðan er sú að Trump er ekki kjörgengur.

Flestir telja langsótt að reyna að fella Trump með þessum hætti, enda myndi hann áfrýja óvilhöllum dómum og málið líklega enda fyrir hæstarétti. Þar sitja þrír dómarar skipaðir af Trump. Einnig er mögulegt að málin séu ótímabær, þar sem frambjóðendur hafa ekki enn sótt um að verða settir á kjörseðla ríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×