Íslenski boltinn

Sam­skipti Arnars við bekkinn ekki brot þrátt fyrir leik­bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson í símanum við sína menn í stúkunni á Origovellinum að Hlíðarenda
Arnar Gunnlaugsson í símanum við sína menn í stúkunni á Origovellinum að Hlíðarenda Vísir/Anton Brink

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur ákveðið að samskipti Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings í Bestu deild karla, við varamannabekk sinn í leik gegn Val þar sem hann sætti leikbanni ekki vera brot á reglum sambandsins.

Frá þessu greindi KSÍ þegar klukkan var nýslegin 20.00 á föstudagskvöldi. Þar segir:

„Í úrskurðarorðum nefndarinnar kemur fram að Knattspyrnudeild Víkings R. og Arnar Bergmann Gunnlaugsson skulu ekki sæta viðurlögum vega málsins.“

Arnar var sum sé í leikbanni gegn Val en það kom ekki að sök þar sem topplið Víkings vann öruggan 4-0 sigur á Hlíðarenda.

Arnar var í símanum nærri allan leikinn og játti því að hafa verið að ræða við varamannabekk sinn. Þegar farið var yfir leikinn í Stúkunni veltu menn einfaldlega sér hvort um væri að ræða brot á lögum KSÍ.

Skömmu síðar kom í ljós að Valsmenn væru að íhuga að kæra afskipti Arnars af leiknum. Það var svo Klarta Bjartmarz, fram­­kvæmda­­stjóri KSÍ, sem óskaði eftir því að aga- og úrskurðarnefnd sambandsins myndi taka málið fyrir.

Niðurstaða þeirra var að Arnar væri ekki brotlegur og því muni hvorki hann né Víkingur sæta viðurlögum vegna málsins. Úrskurðinn má lesa hér að neðan.

Bergmanni hafi því borið því að taka út sitt leikbann annars vegar í leik Víkings R. gegn HK 13. ágúst og hins vegar í leik liðsins við Val þann 20. ágúst. Í síðarnefndum leik Vals og Víkings R. í Bestu deild karla, sem fram fór á Origo vellinum þann 20. ágúst sl., hafi þjálfari mfl. karla hjá Víkingi R. verið á meðal áhorfenda. Á meðan leik stóð hafi Arnar Bergmann ítrekað notað farsíma sinn til að koma skilaboðum og skipunum áfram til starfsfólks og þjálfara Víkings R. í boðvangi. Það hafi Arnar Bergmann gert þrátt fyrir að eiga að taka út leikbann í leiknum. Í því tilliti er vísað til gagna, þ.m.t. viðtal við þjálfara mfl. Víkings R. þar sem hann greinir frá samskiptum sínum við varamannabekk Víkings R. 

Að mati framkvæmdastjóra var um að ræða mögulegt brot á grein 36.1. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Í samræmi við grein 34.3. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót skal fara með mál vegna meintra brota á reglugerðinni eins og um kærumál sé að ræða. 

Greinargerð framkvæmdastjóra var því send til knattspyrnudeildar Víkings R. og Arnars Bergmann Gunnlaugssonar og aðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum í málinu á framfæri við nefndina fyrir kl. 12:00 föstudaginn 25. ágúst 2023. 

Á fundi nefndarinnar 25. ágúst 2023 lá fyrir greinargerð sem barst til skrifstofu KSÍ frá knattspyrnudeild Víkings R. Í greinargerðinni kemur m.a. eftirfarandi fram: „Þegar litið er til reglugerðar um aga- og úrskurðarmál ætti að vera ljóst hvað leikbann þjálfara felur í sér. Þjálfara er þannig óheimilt að vera á leikvellinum frá því klukkustund er til upphafs leiks og þar til honum er lokið. Þjálfara er jafnframt óheimilt að vera í boðvangi á sama tímabili, í búningsherbergjum og annars staðar þar sem hann getur haft bein áhrif á leikmenn liðs síns. 

Að mati Knattspyrnudeildar Víkings er hins vegar afar óljóst hvað felst í hugtakinu „í tengslum“, eins og það kemur fram í grein 12.7. Að mati Knattspyrnudeildar Víkings verður að túlka hugtakið með þeim hætti að þjálfara sé óheimilt að hafa bein áhrif á lið sitt, eins og hann gerir alla jafna á hliðarlínu leiksins. Þannig megi þjálfari sem er í leikbanni t.d. ekki vera staðsettur neðarlega í áhorfendastúku og kalla bein fyrirmæli til sinna leikmanna. Að sama skapi megi þjálfari augljóslega ekki mæta í búningsherbergi í hálfleik og gefa liðsmönnum sínum bein fyrirmæli. 

Ákvæðis felur hins vegar ekki í sér bann við því að þjálfari sé í tengslum við samstarfsfólk sitt í þjálfarateymi liðsins, enda ómögulegt að koma í veg fyrir slíkt og ljóst að með nútímatækni er það einfaldlega hluti af leiknum.“ III. Niðurstaða: Fyrir liggur að taka þarf afstöðu til þess hvort meint brot Víkings R. og Arnars Bergmann Gunnlaugssonar þjálfara mfl. karla, sem vitnað er til í greinargerð frá framkvæmdastjóra KSÍ, dags. 23. ágúst sl., falli undir ákvæði greinar 36.1. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót og/eða grein 12.7. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál. 

Ákvæðin er svohljóðandi: „Lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks og félag sem notar leikmann í leikbanni, telst hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3 nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða. Félag sem notar þjálfara eða forystumann sem er í leikbanni skal sæta sektum og viðkomandi frekara leikbanni í samræmi við ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar. Lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks, skal sæta sekt að upphæð allt að kr. 75.000. Félag, sem notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni, skal sæta sektum að upphæð allt að kr. 300.000 sé brotið framið í meistaraflokki. Sé brotið framið í öðrum flokkum skal sektin vera allt að kr. 50.000.“ „Þjálfari eða forystumaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með einni klukkustund fyrir leik og þar til dómari hefur flautað til leiksloka. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, boðvangi, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt.“ 

Aga- og úrskurðarnefnd telur óumdeilt að Arnar Bergmann Gunnlaugsson hafi, er hann var á meðal áhorfenda í leik Vals og Víkings R. í Bestu deild karla, komið skilaboðum og skipunum í gegnum farsíma áfram til starfsfólks og þjálfara Víkings R. í boðvangi. Það gerði Arnar Bergmann á meðan hann tók út leikbann í leiknum í samræmi við úrskurð nefndarinnar frá 15. ágúst sl. 

Í greinargerð framkvæmdastjóra er til þess vísað að háttsemi Arnars Bergmann hafi mögulega falið í sé brot á grein 36.1. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Samkvæmt ákvæðinu skal félag, sem notar þjálfara eða forystumann sem er í leikbanni, sæta sektum og viðkomandi frekara leikbanni í samræmi við ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar. Einnig skuli félag, sem notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni, sæta sektum að upphæð allt að kr. 300.000 sé brotið framið í meistaraflokki. 

Að mati aga- og úrskurðarnefndar og á grundvelli almennra lagasjónarmiða skal viðurlagaákvæði það sem er að finna í grein 36.1. skýrt þröngt. Skýr viðurlagaheimild skal vera fyrir hendi þannig að víst megi telja að háttsemi falli undir lýsingu viðurlagaákvæðisins. 

Þegar litið er til greinar 12.7. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál má telja ljóst að ákvæðinu sé ætlað að skýra hvar þjálfari sem mætir á leikstað megi vera staðsettur á meðan hann tekur út leikbann. Samkvæmt því megi þjálfari, sem tekur út leikbann, mæta á leikstað og vera á meðal áhorfenda, en megi ekki vera staðsettur nærri leikmönnum og starfsliði eða þar sem hann geti verið í beinum tengslum við lið sitt. 

Að mati aga- og úrskurðarnefndar geti rafræn samskipti líkt og þau sem vitnað er til í greinargerð framkvæmdastjóra ekki ótvírætt falið í sér brot gegn grein 12.7. Orðalag greinar 12.7. komi ekki veg fyrir annað en að þjálfari sé staðsettur á skilgreindum svæðum á leikstað sé hann að taka út leikbann. Af þeim ástæðum lítur aga- og úrskurðarnefnd svo á að tilvitnuð framkoma Arnars Bergmann Gunnlaugssonar feli ekki ótvírætt í sér brot gegn ákvæði greinar 12.7. í reglugerðum um aga- og úrskurðarmál. 

Af sömu ástæðum verður ekki litið svo á að tilvitnuð framkoma. Arnars Bergmanns Gunnlaugsson feli í sér brot gegn grein 36.1. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Ákvað aga- og úrskurðarnefnd KSÍ því á fundi sínum 25. ágúst 2023 að Víkingur R. og Arnar Bergmann Gunnlaugsson skuli ekki sæta viðurlögum samkvæmt grein 36.1. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. IV. 

Úrskurðarorð: Knattspyrnudeild Víkings R. og Arnar Bergmann Gunnlaugsson skulu ekki sæta viðurlögum í samræmi við grein 36.1. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Um áfrýjun: Samkvæmt grein 16.3 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál er frestur til að áfrýja máli til áfrýjunardómstóls KSÍ 3 dagar frá því að úrskurður aga- og úrskurðarnefndar er kveðinn upp og skulu almennir frídagar ekki taldir með. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×