Íslenski boltinn

Óli Jó um lág­punkt ferilsins: „Fannst þeir koma illa fram við mig“

Aron Guðmundsson skrifar
Ólafur Jóhannesson á að baki magnaðan feril í þjálfun.
Ólafur Jóhannesson á að baki magnaðan feril í þjálfun. Vísir/Hulda Margrét

Ólafur Jóhannes­son, fyrr­verandi knatt­spyrnuþjálfari FH, segir lág­punktinn á sínum ferli hafa verið þegar hann var rekinn frá FH og situr það í honum hvernig staðið var að upp­sögninni. Stjórn­endur FH hafi sýnt honum van­virðingu og komið illa fram við sig.

Út er komin ævi­saga knatt­spyrnuþjálfarans Ólafs Jóhannes­sonar. Bókin: Óli Jó – fót­bolta­saga, er rituð af Ingva Þór Sæ­munds­syni íþrótta­frétta­manni og í henni segir Ólafur, sem kom víða við á sínum ferli og gerði FH meðal annars að stór­veldi, sögu sína á fádæma skemmti­legan og bein­skeyttan hátt.

Ólafur er á því að lág­punkturinn á hans þjálfara­ferli hafi komið tíma­bilið 2022 þegar að hann var þjálfari FH, liðið í níunda sæti efstu deildar eftir níu um­ferðir og hafði verið nýbúið að gera jafn­tefli við Leikni Reykja­vík á heima­velli.

Ólafur sat með teymi sínu, Sigur­birni Hreiðars­syni og Fjalari Þor­geirs­syni inni í klefa þegar bankað var á dyrnar. Fyrir utan stóðu Valdimar Svavars­son, for­maður knatt­spyrnu­deildar FH, Davíð Þór Viðars­son, yfir­maður knatt­spyrnumála og Gunnar Bein­teins­son, fyrr­verandi hand­bolta­maður

Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH Vísir/VÍS

„Svo byrjaði Valdimar að tala. Hann var búinn að tala í ein­hverjar fimm mínútur eða lengur þegar ég sagði við hann: „Valdi, ertu að reyna að segja okkur að þú sért að reka okkur? Geturðu ekki bara sagt það?“ Þá sagði hann að þeir hefði ákveðið að breyta til.“

„Var ég rekinn líka?“

Ólafur segist hafa verið dóna­legur við Valda í kjölfarið. Sagt ýmis­legt sem hann átti ekki að segja, rak þá svo úr klefanum. Hann og Bjössi Hreiðars fóru svo heim til Óla og fengu sér einn bjór.

„Við komum heim til mín og þá sagði Bjössi: „Var ég rekinn líka?“ Ég sagðist ekkert vita um það. Ég hugsa að ég hafi verið svo vondur að þeir hafi ekki komið sér að því að reka Bjössa líka.“

Sigurbjörn Hreiðarsson og Ólafur Jóhannesson á góðri stunduHimmi

Stjórnendur FH verði að líta í eigin barm

Það sem Ólafi þótti fúlast við þetta var að þeir menn sem réðu hann til starfa skyldu ekki hafa verið meiri menn en svo að þeir þorðu ekki að standa fyrir framan hann og segja honum þetta.

„Heldur sendu ein­hverja skrif­stofu­titti í það. Það fór líka í taugarnar á mér að þeir skyldu gera þetta svona, strax eftir leik.“

Hann hafi átt skilið meiri virðingu þá neituðu stjórn­endur í FH að borga honum upp­sagnar­frestinn og þurfti lög­fræðing til að sækja hann.

„Mér fannst þeir koma illa fram við mig. Og síðan þá hef ég ekki farið á leik í Kapla­krika sem áhorfandi. Ég hef lýst leikjum þar og farið til að taka við viður­kenningum en ég fer ekki þangað til að horfa á fót­bolta­leiki eins og mig langar að gera. Ég nenni ekki að gera það meðan ákveðnir menn eru við völd þarna.“

Stundum sé talað um að menn verði of stórir fyrir félagið sitt.

„Þegar þeir hafa starfað lengi verði þeir ráðríkir, og ég held að stjórn­endur FH verði líka að líta í eigin barm og spyrja sig hvort þeir hafi verið of lengi við völd. En það getur enginn sett þá af nema þeir sjálfir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×