Sport

„Það var allt betra í seinni hálfleik“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ómar Ingi Guðmundsson var svekktur með að hafa fengið á sig jöfnunarmark á 90 mínútu 
Ómar Ingi Guðmundsson var svekktur með að hafa fengið á sig jöfnunarmark á 90 mínútu  Vísir/Hulda Margrét

HK og FH gerðu 2-2 jafntefli í Kórnum. HK komst yfir á 87. mínútu en gestirnir jöfnuðu þremur mínútum síðar. Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var því afar svekktur að hafa ekki fengið þrjú stig.

„Við erum klárlega svekktir með að hafa ekki náð að vinna leikinn. Við vorum ólíkir sjálfum okkur í fyrri hálfleik og við ræddum það í hálfleik. Við vorum ekki að treysta hvor öðrum fyrir boltanum og varnarleiknum,“ sagði Ómar Ingi Guðmundsson eftir leik.

FH komst yfir á 13. mínútu og Ómari fannst sínir menn vera klaufar í markinu.

„Við vorum of langt frá mönnunum og gáfum þeim allt of mikinn tíma á boltann. Við eigum stóran þátt í því hvernig markið sem þeir skora verður til og við vorum búnir að tala um það að það kæmu tímabil þar sem þeir myndu sækja á okkur og við þyrftum ekki að láta það fara í taugarnar á okkur heldur leysa það en við gáfum þeim tækifæri til þess að komast yfir og þeir tóku það.“

Ómar var ánægður með seinni hálfleikinn þar sem HK fóru að komast í betri færi og Anton Søjberg skoraði tvö mörk.

„Mér fannst andinn vera allt annar í seinni hálfleik. Við vorum líkari því sem við viljum gera og við gerðum vel og vorum fljótari til baka og spiluðum betri vörn. Það var allt betra í seinni hálfleik og það var það sem kom okkur yfir á endanum.“

Gyrðir Hrafn Guðbrandsson tryggði FH-ingum stig þegar hann jafnaði leikinn á 90. mínútu. Ómar var því afar svekktur að hafa fengið á sig jöfnunarmark.

„Þetta var ógeðslega svekkjandi. Strax eftir leikinn þá var bara hrikalega svekkjandi að hafa fengið þetta jöfnunarmark á sig af því að við ætluðum að vinna þennan leik,“ sagði Ómar Ingi Guðmundsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×