Innlent

Drónar bannaðir en ekki þyrlur: „Þarna leggurðu heilu hóteli inn í miðju frið­landi“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Margrét segir marga furða sig á því að drónaflug sé óheimilt í friðlandinu við Dynjanda vegna fuglalífs á meðan þyrluferðir á vegum skemmtiferðaskipa eru heimilar.
Margrét segir marga furða sig á því að drónaflug sé óheimilt í friðlandinu við Dynjanda vegna fuglalífs á meðan þyrluferðir á vegum skemmtiferðaskipa eru heimilar.

Forn­leifa­fræðingur furðar sig á því að skemmti­ferða­skipum og þyrlum sé leyfi­legt að ferja ferða­menn að Dynjanda í frið­landi í Arnar­firði á meðan dróna­flug sé ó­heimilt á þeim for­sendum að það raski friði fugla og manna í frið­landinu.

„Þetta er ó­trú­lega flott skip og á því eru tvær þyrlur og einn kaf­bátur en við höfum pirrað okkur á því að það sé bannað að vera hér með dróna en allt í lagi að fljúga þyrlum hérna yfir allan Arnar­fjörðinn,“ segir Margrét Hrönn Hall­munds­dóttir, forn­leifa­fræðingur við Náttúru­stofu Vest­fjarða, um skemmti­ferðar­skip sem heim­sótti Dynjanda í dag, í sam­tali við Vísi.

Að sögn Margrétar er um að ræða skemmti­ferða­skipið Scenic Eclip­se II. Á vef skipa­fé­lagsins kemur fram að skipinu sé ætlað að sam­eina lúxus og ævin­týra­mennsku. Bryti er um borð. 

Við­skipta­vinum er boðið upp á för hringinn í kringum eyjuna á tíu dögum og ef pöntuð væri ferð milli 5. og 14. ágúst kostar hún 8.120 bresk sterlings­pund eða því sem nemur rúmum 1,3 milljónum íslenskra króna.

Úr kynningarmyndbandi vegna Íslandsferðar með Scenic Eclipse II.

Fuglarnir urluðust

Margrét hefur á­samt kollegum verið við forn­leifa­rann­sóknir skammt frá Arnar­firði, einnig í fyrra og því orðið vitni að komu þó nokkurra skemmti­ferða­skipa.

„Við erum að grafa hérna og það var stans­laust fram á kvöld þyrlu­flug yfir fjörðinn í dag. Flugið er ekki mjög lágt en þú getur í­myndað þér á­hrifin á fugla­lífið þegar þær eru að lenda á skipinu. Þetta er þyrlu­pallur í miðju frið­lendi.“

Á vef Um­hverfis­stofnunar kemur fram að flug dróna sé með öllu ó­heimilt við Dynjanda. Vísað er til rann­sókna á dróna­flugi sem sýna að það geti haft truflandi á­hrif á fugla­líf. Fram kemur að í Dynjandi­svogi hafi verið skráðar 35 tegundir fugla, þar á meðal nokkrar tegundir sem eru á lista yfir á­byrgðar­tegundir Ís­lands og/eða eru á vá­lista.

Í Dynjandisvogi hafa verið skráðar 35 tegundir fugla.Vísir/Vilhelm

„Við urðum vitni að því þegar fuglarnir urluðust í fyrra, þá vorum við að grafa tölvuvert innar í firðinum. Það hlýtur að þurfa að taka á þessu,“ segir Margrét. 

„Í fyrra hringdi leið­sögu­maður frá Ísa­firði í stofnunina til að spyrjast fyrir um þetta þyrlu­flug í frið­landinu og hann fékk þau svör að það væri það ekki ó­heimilt. Fólk er alveg rasandi yfir því að þetta skuli vera leyfi­legt, vegna þess að allir aðrir ferja ferðamenn frá Ísafirði. Þarna ertu að leggja hóteli inn í miðju frið­landi.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×